Hvar ertu listin mín?

Söluhæsta smjörlíkismúsíktrío allra tíma, Río tríó, sem söng um Ljómann og einnig um Landið sem fýkur burt. Þar mátti heyra þessi fleygu orð Hvar ertu þjóðin mín? Vel mætti segja list í stað þjóðar þegar maður huxar um listalífið á Vestfjörðum í fyrra. Nei, ég ætla ekki að segja afhverju því við vitum öll hvurs vegna. Og einhvursstaðar las ég hjá einhverjum ráðleggjanda og spegulant að maður ætti að forðast að tala um þetta, þið hvað, og alls ekki rita nafn þess, þið vitið samt hvað það heitir. Heldur frekar, reyna að huxa um eitthvað annað og þá helst eitthvað bjart og jákvætt. Auðveldara sagt en gert. En skal hér gert og stuttlega kikkað á listina á Vestfjörðum svo það fari nú ekki fyrir mér einsog í áðurnefndu lagi Ríós er þeir sungu, Úr verki verður fátt. Samt var nú árið voða mikið þannig hjá listamanninum mér ég hef bara aldrei haft jafn mikið að gera ekki í því að listasta nei heldur því að taka við afbókunum. Það rýkir samt ekkert auðnin ein, svo enn sé vitnað í texta lagsins um Landið sem fýkur burt. Merkilegt nokk þá fóru allnokkrir listviðurðir fram á liðnu ári hér vestra.

Af óvenjulegu vestfirsku listaári

Engin veit allt en flestir vita fátt allavega sá er hér ritar. Ég nýtti mér því tæknina og fór á vestfirska vefinn bb.is og renndi einfaldlega í gegnum listafréttamenningarmagasínið yfir árið 2020. Það er því efniviðurinn í þetta bakkikk mitt og því vantar örugglega helling hér inní enda er ég nú sá sem man aldrei hverju hann er búinn að gleyma.

Best að byrja á því að nefna að það voru engir fastir liðir einsog venjulega í listalífinu árið 2020. Bæði Act alone og Skjaldborg urðu aflýsingunni að bráð. Reyndar var Skjaldborg haldin að einhvejru leyti fyrir sönnan. Aldrei, var þó haldið en aðeins rafrænt. Það er allavega óhætt að margt af mörgu sem við höfum lært af listaleysi liðins árs að það jafnast ekkert á við að vera á staðnum. Rafheimar eru dásamlegir en fátt toppar að vera í raunheimum hvað listina varðar.

Það var talsvert um að vera í myndlistarsenunni á Vestfjörðum árið 2020. Sérlega var mikið um sýningar í Gallerí úthverfu og þar á meðal sýningarröðin Ferocious Glitter. Meðal þeirra sem sýndu í útverfu á árinu má nefna Gabríelu Friðriksdóttur, Sigrúnu Rósu og Einar Þorsteinsson. Sama má segja um tónlistarsenuna þó vissulega hafi oft verið fleiri konsertar svona í venjulegu ári, eigum við bara ekki að segja að við verðum aftur komin í gott listaár strax á næsta ári hér vestra. Fiðlumeistarinn vestfirski Hjörleifur Valsson kom í upphafi árs ásamt tónlistarkonunni Ourania Menelaou og buðu uppá konsert í Ísafjarðarkirkju. Tríó Sírajón var máunði síðar í Hömrum og þriðja árið í röð var boðið uppá músíkhátíðina Sjö dagar sælir á Ísafirði. Ísfirska tónskáldið Halldór Smárason gaf út nýja plötu er hann tók upp í Hömrum á Ísafirði og þar fóru einnig fram útgáfutónleikar í lok júlí. Salóme Katrín sendi frá sér einn einn slagarann á árinu lagið, Elsewhere. Ekki má svo gleyma tónlistarverkefninu Bach á Sumarsólstöðum þar sem Sæunn Þorsteinsdóttir flutti sex svítur tónskáldsins í sex vestfirskum kirkjum.

Í leikhúsinu var aðeins rólegra en í venjulegu vestfirsku listaári. Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, náði þó að frumsýna tvær sýningar. Fyrri leikurinn Iðunn og eplin var frumsýndur í febrúar í Grunnskóla Flateyrar og í lok ágúst var Beðið eftir Becektt frumsýnt í Kómedíuleikhúsinu Haukadal. Leikhúsið gaf einnig út nýja bók, Leiklist og list á Þingeyri. En bókin er liður í vestfirskri leiksöguritröð. Súgfirðingurinn Eðvarð Sturluson sendi frá sér ljóðabók fyrir jól, Ljóðin hans pabba, og á Ströndum kom út bókverkið Strandir 1918.

Í mars stóð Tálknafjarðarskóli fyrir allmikilli Fjölmenningarhátíð þar í þorpi og þótti lukkast sérlega vel. Væri vissulega gaman að hafa hér meira um list á suðurfjörðum Vestfjarða og af Ströndum að fjalla en það er bara eitt af því sem við þurfum að bæta. Að huxa um Vestfirði sem eitt svæði og nú eru Dýrafjarðargöngin komin og ættu að tryggja meira samspil millum alla Vestfirðinga. Víst gleymdist að huxa lengra en að Dynjanda hvað vetrarsamgöngur varðar en það er verið að vinna í því. Meðan svo er þá er vel og næsta víst að við komumst aðeins áfram héðan í frá, afturábak er ekki í boði, einfaldlega vegna þess að Vestfirðir hafa verið alltof lengi í afturísætinu. Nú stefnum við á fyrsta farrými á öllum sviðum og þá ekki síst í listinni. Því segja má að með Dýrafjarðargöngunum hafi listamarkaðurinn stækkað um heilan helling. Nú, þegar Dynsan er opin, er ekkert mál að skreppa á tónleika eða leiksýningu eða bara jafnvel jólaball (já mikið verður gaman þegar allt þetta verður haldið á ný) hvoru megin gangnanna sem þú býrð.

Nokk svona var listaárið vestfirska samkvæmt fréttasafni BB. Við tökum kannski ekki alveg undir með smjörlíkis söngtríóinu um að árið megi bara fjúka burt, líkt og landið í samnefndum söng. Við lærðum að meta listina enn frekar í öllu listaleysinu og sannfærðust enn betur um það að listin er stór partur í okkar vestfirsku tilveru. Í raun kemur ekkert í stað listar sem er einsog þjóðardrykkurinn, bætir, hressir og kætir.

Gleðilegt vestfirskt lista meira ár.

Elfar Logi Hannesson