Friðlýsing Látrabjargs: ekkert liggur fyrir um aukið fjármagn

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að ekki liggir fyrir, að svo stöddu, hvort friðlýsingu Látrabjargs muni fylgja aukið fjármagn og fleiri störf.  Friðlýsingin er í undirbúningi og bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt drög að friðlýsingarskilmálum fyrir svæðið.

Í svörum frá Umhverfisstofnun segir að ekki hafi komið fram upplýsingar um áformaða fjárveitingu til nýs þjóðgarðs á svæðinu, verði hann að veruleika.

Fjármagn til umsjónar og reksturs svæðisins, þ.e. sunnanverðra Vestfjarða,  hefur verið með sambærilegum hætti undan farin ár segir í svarinu. Í ár er gert ráð fyrir að kostnaður umsjónar og rekstrar (þ.m.t. landvörslu) á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e. á Látrabjargi, Vatnsfirði, Surtarbrandsgili, Dynjanda og Brunnum (salerni) verði 26,9 m.kr. Stofnunin aðgreinir ekki að fullu milli rekstrar á framangreindum svæðum og því ekki hægt að segja með nákvæmni hver rekstrarkostnaður hafi verið á Látrabjarginu sjálfu.

Varðandi framkvæmdafjármagn þá liggur fyrir, samkvæmt svari Umhverfisstofnunar,  fjármagn til uppbyggingar salernis að Brunnum, 10 m.kr., lagfæring bílastæðis í samvinnu við landeigendur við Látrabjarg, 15 m.kr. og lagfæring gönguleiða um 4 m.kr. Ekki er búið að taka fyrir aðrar tillögur frá stofnuninni hjá innviðasjóði.