Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur undanfarið ár unnið að gerð sértækrar jarðgangaáætlunar fyrir Vestfirði. Ætlunin er að hún verði síðan hluti af nýrri Innviðaáætlun fyrir Vestfirði.
Mnnisblað með drögum að áætlun hefur verið send til sveitarstjórna til umsagnar.
Í því segir :
„Ljóst er að í hönd fer barátta hvaða jarðgangakostir verði settir á dagskrá með nýrri jarðgangaáætlun. Með sérstakri jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði með forgangsröðun verkefna, telur samgöngunefnd FV að landshlutinn standi betur að vígi í umræðu og ákvarðanatöku um nýja jarðgangaáætlun fyrir landið í heild.“
Í áliti meirihluta umhverfis og samgöngunefndar Alþingis við Samgönguáætlun 2020-2034 sem afgreidd var á síðasta ári er lagt til að ráðist verði í Fjarðarheiðargöng en níu aðrir jarðgangakostir nefndir án þess að raða þeim. Fimm þeirra eru á Vestfjörðum. Það eru Skutulsfjörður – Álftafjörður (Ísafjörður – Súðavík), Hálfdán, Miklidalur, Kleifaheiði og Vestfjarðagöng – breikkun (Breiðfjarðar- og Botnsheiðargöng).
Samgöngunefnd Fjórðungssambandsins telur að fyrirliggjandi drög að jarðgangnaáætlun lýsi vel stöðu mála í dag og þeim jarðgangakostum sem þar eru tilgreindir. Eftir stendur hinsvegar að ræða forgangsröðun verkefna og þeim áherslum sem þar eru lagðir til grundvallar.
Er því leitað álits sveitarstjórna á Vestfjörðum og gert er ráð fyrir fjarfundum með sveitarstjórnum á Vestfjörðum um miðjan janúar 2021.
Þar verða drögin kynnt og samantekt á valkostum sem hafa komið til umræðu og óskað eftir afstöðu sveitarfélaga um forgangsröðun.
Þegar þeirri vinnu líkur verður lokið við gerð Jarðagangaáætlunar Vestfjarða og henni fylgt eftir gagnvart Alþingi, ráðuneytum og Vegagerð.