Breiðafjarðarnefnd sendir tillögur til ráðherra varðandi framtíð Breiðafjarðar

Breiðafjarðarnefnd hefur sent umhverfis- og auðlindaráðherra erindi með tillögum sínum um framtíð verndar, nýtingar og stjórnunar verndarsvæðis Breiðafjarðar. Markmið nefndarinnar með tillögunum er að varðveita náttúru og menningu svæðisins samhliða því að styrkja enn frekar samfélögin umhverfis fjörðinn, þar á meðal atvinnulíf.

 

Í tillögum sínum til ráðherra leggur Breiðafjarðarnefnd áherslu á að endurskoða þurfi lög um vernd Breiðafjarðar og það verði gert sem fyrst. Lögin eru orðin ríflega 25 ára gömul og hafa ekki tekið efnislegum breytingum síðan þau voru sett. Um leið verði horft sérstaklega til þess möguleika að stækka svæðið svo það nái frá Bjargtöngum að Öndverðarnesi. Nefndin leggur einnig til við ráðherra að hann beiti sér fyrir því að Breiðafjörður verði skráður á lista yfir Ramsarsvæði, en Ramsarsamningurinn er alþjóðlegur samningur um verndun votlendis, þar á meðal strandsvæða niður á 6 metra dýpi. Nefndin óskar að auki eftir því að ráðherra hefji vinnu við að skoða og kynna á næstu misserum kosti og galla stofnunar þjóðgarðs á Breiðafirði, á hluta svæðisins eða í heild, og skráningar svæðisins á heimsminjaskrá UNESCO.

 

Tillögur nefndarinnar byggja á ítarlegri upplýsingaöflun og samráðsvinnu sem nefndin hefur unnið að á tveggja ára tímabili. Nefndin stóð meðal annars fyrir opnu málþingi um framtíð Breiðafjarðar í Tjarnarlundi í Dalabyggð, hélt fjóra opna íbúafundi við fjörðinn og fundaði með fulltrúum hverrar sveitarstjórnar fyrir sig. Á þessum fundum fengu nefndarmenn að heyra mismunandi sjónarmið sveitarstjórna, hagsmunaaðila og almennings, sem skýrði betur hvaða leiðir gætu komið til greina og hvar helstu ágreiningsefnin lægju.

 

Með þessu vildi Breiðafjarðarnefnd hefja samtalið og stíga fyrsta skrefið í átt að mótun framtíðar Breiðafjarðar.

 

Í nóvember 2020 tók Breiðafjarðarnefnd niðurstöður samráðsvinnu sinnar saman og sendi sveitarfélögum við fjörðinn til formlegrar umsagnar. Samantektin var auk þess birt á heimasíðu nefndarinnar og áhugasömum gefinn kostur á að senda inn athugasemdir. Breiðafjarðarnefnd lagði svo lokahönd á niðurstöður sínar í samræmi við umsagnir, þá sérstaklega umsagnir sveitarfélaga. Samantektin fylgdi erindi nefndarinnar til ráðherra máli hennar til stuðnings.

 

Umsagnir bárust frá öllum sjö sveitarfélögunum við fjörðinn. Umagnirnar voru langflestar jákvæðar og augljóst er að sveitarfélögin eru sammála Breiðafjarðarnefnd um að mikilvægt sé að ráðast í endurskoðun á lögum um vernd Breiðafjarðar. Hvað varðar aðrar leiðir, sem nefndin leggur til, er almenn afstaða sveitarfélaganna sú að mikilvægt sé að kanna vel og kynna enn betur kosti og galla þeirra fyrir íbúum og hagsmunaaðilum svo að sem ríkust sátt náist um málið. Þess ber þó að geta að umsögn Stykkishólmsbæjar var ólík umsögnum hinna sveitarfélaganna og af henni má ráða að sveitarfélagið sé ekki tilbúið í samstarf um frekari verndun.

 

Umsagnir bárust einnig frá fulltrúum félagasamtaka, útgerðarfélaga, landeigenda og frá öðrum áhugasömum um framtíð svæðisins og voru ýmist jákvæðar eða neikvæðar gagnvart hugmyndum nefndarinnar. Hægt er að kynna sér einstakar umsagnir í viðauka skýrslu nefndarinnar.

 

Breiðafjarðarnefnd leggur, eins og sveitarfélögin, höfuðáherslu á að í áframhaldandi vinnu verði þátttaka sveitarstjórna, íbúa, landeigenda, atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila tryggð. Nefndin telur líka miklu máli skipta að fulltrúar svæðisbundinna og landsþekjandi fagstofnana á sviði náttúru- og menningarminja verði hafðir með í mótun framtíðar Breiðafjarðar og að áfram verði lögð rík áhersla á fræðslu, samtal og samráð. Við frekari mótun á framtíð Breiðafjarðar þarf að gæta að samræmingu á vernd og nýtingu og að verndaraðgerðir takmarki ekki sjálfbæra nýtingu á auðlindum.

 

Nefndin er þakklát þeim sem hafa látið sig málið varða, tekið þátt í umræðum á fundum eða sent umsagnir og athugasemdir til nefndarinnar.

 

Skýrsluna og aðrar upplýsingar er varða vinnu Breiðafjarðarnefndar er að finna á heimasíðu hennar, www.breidafjordur.is.

 

Viðbót Bæjarins besta:

Í Breiðafjarðanefnd sitja sjö fulltrúar. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn og var skipuð 9. júní 2017. Sveitarfélögin sem liggja að Breiðafirði tilnefna fjóra fulltrúa, Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur á Vesturlandi og Vestfjörðum einn sameiginlega og einn tilnefndur af þjóðminjaráði. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.

Í nefndinni eru:

Erla Friðriksdóttir, formaður

Magnús A. Sigurðsson frá Minjastofnun

Róbert Arnar Stefánsson frá náttúrustofunum og Náttúrufræðistofnun

Karl Kristjánsson frá Reykhólahreppi

Arnheiður Jónsdóttir frá vesturbyggð

Eyjólfur Ingvi Bjarnason frá Dalabyggð

Ragnhildur Sigurðardóttir frá Stykkishólmsbæ, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbæ og Snæfellsbæ.

Ritari nefndarinnar
Theódóra Matthíasdóttir

Myndir: Róbert A. Stefánsson.

DEILA