Bognum, en brotnum ekki! Framtíðin er björt í Bolungarvík

Árið 2020 fór í sjálfu sér ágætlega af stað. Ég man eftir að hafa byrjað árið 2020 á því að setjast við gluggann heima hjá mér, sem vísar út á djúpið til að lesa Brimbrjótinn, blað Bolvíkingafélagsins, og horfa á lítilsháttar él sem voru við Snæfjallaströndina.

Þetta getur nú ekki verið mikið, hugsaði ég, og sökkti mér ofaní blaðið og las sögur,  bolvískar sögur í blaðinu góða.

En élið hvarf ekki og það fór svo að náttúran minnti okkur á að það er hún sem ræður för hér sem annarsstaðar og við getum ekki annað en að taka við því sem hún kastar í okkur. Svona eins og með lífið sjálft.

Ég ætla ekki að eyða meiri orðum en nauðsynlegt er á þær hamfarir í veðri og samfélagi sem Bolungarvík og aðrir Vestfirðingar þurftu að takast á við á síðasta ári. Þetta var eftirr, við mokuðum og mokuðum, bösluðum í gegnum veðrið og fylgdumst með nágrönnum okkar á Flateyri berjast við fjöllin sýn sem minntu á gamla drauga. Við misstum líka fólk í alheimsfaraldri sem var sárt og þyngra en tárum taki. Eftirmálar voru, og eru, efnahagslegar hamfarir landsins okkar. Atvinnuleysi og tekjumissir fólks og sveitarfélaga.

Glatað var það, því er ekki að leyna.

En það var einn daginn, ég man ekki nákvæmlega hvenær, að mamma mín sagði við mig nokkur orð sem breyttu öllu. „Þegar lífið var erfitt, þá sagði mamma mín (amma þín) gjarna að Guð leggur ekki meira á okkur en við þolum“.

Í þessari stuttu, fallegu setningu, er kjarni viðspyrnu okkar og framtíðar. Það er ekkert sem veður, sjúkdómar eða efnahagslegar hamfarir geta gert til að brjóta okkur. Ég hef sagt það áður og segi það aftur og aftur. Við Bolvíkingar stöndum á þúsund ára vinnu þeirra sem á undan okkur komu. Þeirra sem bognuðu en brotnuðu ekki.

Og það er einmitt það sem við gerum saman sem samfélag. Við tókumst höndum saman. Héldum utanum hvort annað, fengum bakvarðasveit til að hjálpa til á Bergi, ýttum bílum út úr sköflum og létum hjól atvinnulífsins snúast áfram. Við létum hlutina ganga og saman bognuðum við, en brotnuðum ekki.

Við stöndum á tímamótum. Árið 2020 er búið! Þetta ár sem er nú að hefjast er ár viðspyrnunnar og ég geng bjartsýnn inn í nýtt ár.

Staðan í Bolungarvík er góð og næsta ár hefur alla burði til að vera stórkostlegt. Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er sterk. Þrátt fyrir tekjumissi er gert ráð fyrir jákvæðum rekstri á næsta ári. Við kláruðum nýjan leikskóla á síðasta ári og stærsta framkvæmdin á því næsta verða endurbætur á Grunnskólanum, tengja nýjar borholur fyrir nýtt neysluvatn og fyrsta skrefið í stórkostlegum endurbótum á höfninni í Bolungarvík. Allt með það að markmiði að styrkja innviði Bolungarvíkur og gera samfélagið betur í stakk búið til að takast á við framtíðarvöxt.

Atvinnulífið er í miklum blóma. Arna heldur áfram að vaxa og Jakob Valgeir er í stærstu einstöku fjárfestingu í innviðum félagsins í langan tíma. Svo má ekki gleyma okkar minni þjónustu- og iðnaðarfyrirtækjum sem eru að gera frábæra hluti. Við stofnuðum nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð á síðasta ári og áhersla á nýsköpun mun skila sér í fleiri og spennandi störfum í framtíðinni.

Fasteignaverð hækkaði meira hér á svæðinu en víðast hvar annarsstaðar á landinu og það er barist um þær eignir sem koma á sölu. Fasteignafélög og einstaklingar eru að sækja um nýjar lóðir og allt lítur út fyrir að fjöldi nýrra íbúða verði byggðar í Bolungarvík á næstu árum.

Fjárhagslega sterkt sveitarfélag sem getur fjárfest í innviðum, sterkt atvinnulíf, hækkandi fasteignaverð og fjölgun íbúa er merki um sterkt samfélag sem getur bognað en brotnar ekki.

Ég tek árinu 2021 fagnandi með bjartsýni í huga fyrir hönd Bolvíkinga og allra Vestfirðinga.

Þetta verður æði!

Jón Páll Hreinsson,

bæjarstjóri í Bolungarvík