Af árinu 2020 – annáll sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.

Árið 2020 byrjaði með látum í janúar hér vestur á fjörðum. Ef rekja á minnisstæðustu atvikin þá er það án efa að vera ræstur um miðja nótt með fréttir af snjóflóðum á Flateyri og Suðureyri. Það var aðfararnótt 15. janúar, en ég svaf af mér fréttir það kvöldið og var grunlaus um það sem átti sér stað þann 14. Held að það hafi ekki þyrmt eins mikið yfir mig við viðlíka fréttir í seinni tíð. Blessunarlega varð ekki manntjón en af hlaust þjó tjón sem verður seint bætt, enda kannski alvarlegust vitneskjan um að varnargarðurinn héldi ekki. Í Súðavík var ekki sams konar hætta eftir að þorpið var fært innar í fjörðinn en með fortíð hér í Súðavík er engin hætta á öðru en að samkenndin sé rík hér með fólki sem glímir við óblíð náttúruöfl.

Að sjálfsögðu var það einkennandi að hafa Covid-19 sem nýjan vágest og var á tíðum erfitt að standa á hliðarlínunni og fylgjast með fréttum af nágrönnum okkar í Bolungarvík. Gríðarlega mikil orka fór í þetta en ég tel að Súðavíkurhreppur hafi sloppið vel frá þessu fram til dagsins í dag. Tíðir fundir í almannavarnarnefnd og aðgerðarstjórn hafa eflaust sett mark á okkur öll sem sátum þá fundi, en þó er þetta frábær hópur og mikill mannauður þar og gott til þess að vita. Ég held að glíman við ósýnilegan óvin sem nærist á gleði og náungakærleik, faðmlögum og gleðskap hljóti að reyna okkur sem manneskjur og endurskilgreina okkar viðmið á mikilvægi þess sem við höfum.

Einhvern veginn eru vetrarmánuðir fram að vori litaðir af Covid-19 og það eiginlega skyggir á marga góða hluti og atburði sem annars hefði verið vert að minnast. Vorið byrjaði með næstum hefðbundnum hætti og líkt og aðrir stóðum við frami fyrir undarlegu ferðasumri fyrir þá sem hafa tengda starfsemi. Það varð til þess að ákveðið var að veðja á íslenska ferðamanninn í ár og það gekk vissulega eftir. Flestir þeir sem ráku einhvers konar ferðaþjónustutengda starfsemi gátu rétt úr sér og upplifað eitt stærsta ef ekki stærsta sumar í viðskiptum, bæði sölu á ferðum og greiða. Líkast til hefur verið hvað erfiðast að klára sig í greinum í sjávarútvegi framan af enda takmarkanir bæði á vinnustöðunum sjálfum og á mörkuðum.

Súðavíkurhreppur fór ágætlega út úr þessu öllu enda yfirbygging lítil á flestu, en þó var mikil seinkun á öllu sem tengdist sjóstangveiðinni og sumarið styttra vegna takmarkana á landamærum og lítils framboðs á ferðum frá Evrópu. Sumarið átti að verða til framkvæmda í hreppnum og var tekinn sá kúrs að ráða fólk til sumarstarfa umfram það sem áður hafði verið, bæði til stuðnings ferðamennskunni og í samstarfi við Vinnumálastofnun. Þá var meira lagt í vinnuskóla og viðhald eigna sveitarfélagsins og mun það standa áfram næsta árið. Er það mitt mat að þetta hafi verið mikið gæfurspor og vegvísir í þrengingum sem við kunnum að standa frami fyrir síðar.

Súðavíkurhreppur kláraði í vor og sumar skipulagsvinnu, bæði aðalskipulag Súðavíkurhrepps 2018-2030 og deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis innan Langeyrar. Skipulagsvinnan var búin í sumar en fór í auglýsingu síðsumars og á haustmánuðum. Skyggði þar á væntingar okkar hjá sveitarfélaginu kæra vegna samþykktar deiliskipulagsins sem hefði getað sett áform Súðavíkurhrepps í uppnám. Deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis innan Langeyrar tekur mið af áformum um byggingu hafnar við landfyllingu og verksmiðjulóðar fyrir væntanlega kalkþörungavinnslu. Næst síðasta dag ársins barst mér úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem kærunni var hrundið. Tel ég það mikilvægan áfanga fyrir okkur í Súðavíkurhreppi auk þess sem það stendur mér nær enda vann ég greinargerðina fyrir sveitarfélagið. Er þá í bili lokið þeim áfanga að fá skipulagið þannig að unnt sé að taka næstu skref. Er þá ekki tími tilkominn að tengja? Rafstrengur eða styrking flutningslínu yfir í Súðavík er líkast til næsti áfangi, líkast til á pari við veg um Teigskóg.

En við stóðum víst í orrahríð á fleiri stöðum en vegna deiliskipulags hér í Súðavíkurhreppi. Ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur farið í herferð gegn fámennum sveitarfélögum undir yfirskini eflingar sveitarstjórnarstigsins. Þar skákaði hann í skjóli Sambands íslenskra sveitarfélaga og hóps fjölmennari sveitarfélaga sem virðast mörg hver hafa viljað með örlög fámennari nágranna sinna að gera. Ég dreg engan dul á það að hér í Súðavíkurhreppi höfum við rætt þetta mál fram og aftur enda ekki nýtt að lagt sé að Súðavíkurhreppi að sameinast öðrum sveitarfélögum. Hreppurinn er í dag safn fleiri sveitarfélaga sem hér voru áður, Súðavík – Ögurhreppi og Reykjafjarðarhreppi frá 1. janúar 1995. Hér hefur verið eytt í það tíma og peningum áður að kanna kosti sameiningar Bolungarvíkurkaupstaðar, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps.

Grant Thornton og fleiri hafa fundið það út að í því felast kostir sem okkur flestum eru auðsæir, svæðið nær ekki 5000 manns samanlagt, lítið hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Ég lagði mig í skotlínu varðandi sameiningarmálin enda brenn ég fyrir þau eins og nokkrum má vera orðið ljóst. Ég tel að árangur hafi náðst þar til þess að verja grunngildi sveitarstjórnarréttar og stjórnskipunar landsins og hefði aldrei staðið hjá án þess að láta í mér heyra. Þakka ég þar samlegð okkar fámennu 20 sem kannski braut mest á – Þresti Friðfinnssyni í Grýtubakkahreppi að örðum ólöstuðum fyrir framgöngu. Hafi markmiðið verið efling sveitarstjórnarstigsins er ljóst að við, þessi fámennu höfum eflst og fengið okkar rödd.

Það fæst ýmislegt með samlegðinni, en það skiptist ekki endilega jafnt. Ekki fást úr slíkri könnun kostist sem gagnast til jafns Súðavíkurhreppi og nágrönnum okkar sem eru meiri að burðum. Með greiðfærum samgöngum á landi milli Bolungarvíkur og Skutulsfjarðar er þetta næsta auðvelt, en hér stöndum við frami fyrir Súðavíkurhlíð sem enginn vill kannst við að sé tálmi nema á tyllidögum. Tugir lokana á Súðavíkurhlíð fyrstu fjóra mánuði ársins segja sitt um það hvernig ásýnd slíks sameinaðs sveitarfélags yrði án þess að breytingar verði á samgöngum. Þetta er sporið sem hræðir, en ekki félagsskapurinn. Í Súðavíkurhreppi þykir okkur vænt um nágranna okkar og sækjum þangað félagsskap, samvinnu, þjónustu og stuðning. Það mun verða áfram í einni mynd eða annarri burtséð frá sveitarstjórum, bæjarstjórum eða sveitarstjórnum. Fólkið ræður, við munum áfram sækja í ykkar félagsskap og vera ykkur til fulltingis í flestum þeim málum þar sem því verður við komið.

Til að sýna það í verki að okkur væri alvara með því að byggja upp sterkara samfélag fór sveitarfélagið í samstarf við Hrafnshól um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á staðnum. Það gekk misvel miðað við áætlun, en Covid-19 og óblíð veðrátta setti sitt mark á framvindu verkefnisins. En í dag er kominn fyrsti íbúinn í nýtt hús í eigu sveitarfélagsins og munu íbúðirnar allar fá hlutverk í sveitarfélaginu til eflingar þess. Hér var stigið spor sem ekki sást endilega fyrir í byrjun árs 2019, enda hafði ekki verið byggt í Súðavíkurhreppi í langan tíma. Allt er til einhvers og hefur áhrif umfram það augljósasta, en þetta er ekki síst mark okkar í hreppnum á það að við lýsum yfir áframhaldandi sjálfstæði, þvert á vilja ráðherra.

Sveitarfélagið stóð frami fyrir samdrætti í tekjum, bæði vegna heimsfaraldurs Covid-19 og afleiðinga sem samdráttur í efnhagslífi hafði á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Tekjufallið er nokkuð, en þrátt fyrir að hafa byggt hús fyrir tæpar 100 milljónir og samdrátt í tekjum frá Jöfnunarsjóði stendur Súðavíkurhreppur jafn vel og í byrjun árs 2020. Lausafjárstaða er góð og eignastaða er langt umfram lögboðið viðmið og skuldaviðmið er ennþá það sama. Hvort það gagnast okkur er þó ekki ljóst, en við gerum okkur vonir um að vera áfram sterkt sveitarfélag og vaxandi þvert á mannfjöldaspár frá Byggðastofnun og tengdum aðilum. Spegill fortíðar er ekki góður mælikvarði fyrir þann sem þarf þor til að rífa sig úr viðjum, held að kjarkur komi okkur lengra og kalla eftir því að við verðum sterkir Vestfirðir áfram með samstarfi og samstöðu.

Ég ætla ekki að leggjast á sveif með þeim sem syrgja ekki árið 2020, enda var margt gott líka, en úrtöluraddir og fréttaflutningur litar afstöðu okkar frá degi til dags. Við megum ekki gleyma því að Vestfirðingar eignuðust ný göng á árinu – Dýrafjarðargöng. Það, hvað sem líður því hverjum áfanga var náð má ljóst vera að þetta er langþráð fyrir marga. Ber að fagna því. Og ekki síst að höggvið var á viðjurnar sem þvældust fyrir í Teigsskógi – þröskuldi framfara og eflingar Vestfjarða. Ég tel það reyndar enn merkari áfanga en Dýrafjarðargöngin.

Það finnst líka rómantík á erfiðum tímum, börn fæðast og lífið heldur áfram. Stöndum bara þéttar með þeim sem við getum umgengist í samkomutakmörkunum og temjum okkur bjartsýni. Ég stikla bara á stóru um þá atburði sem mér finnst standa upp úr á árinu, en það var margt bæði athyglisvert og lærdómsríkt sem átti sér stað, en auðvitað er það eftir sjónarhorni hvað stendur upp úr.

Óska öllum Vestfirðingum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna. Þakka fyrir góð kynni og samferð á árinu, bæði starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins og sveitarstjórnarfólki öllu og öðrum þeim sem ég hef hitt, bæði vegna starfsins og utan þess. Þakka sveitarstjórnarfólki nágrannasveitarfélaganna góð kynni og samstarf, bæði á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga og utan þess. Megi gleði og bjartsýni vera ykkar föruneyti í árið 2021.

Bragi Þór Thoroddsen

sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.