Vinsældir jólasveinanna

Markaðs og miðlarannsóknir ehf hafa kannað vinsældir jólasveinanna meðal kosningabærra Íslendinga.

Kertasníkir hefur misst forystu sína sem vinsælasti jólasveinninn og mældist hann nú jafn Stúfi með um fjórðung tilnefninga. Vinsældir beggja sveinanna minnka þó á milli ára jafnhliða því sem vinsældir Hurðaskellis hafa aukist um heil fjögur prósentustig og mælist hann nú vinsælastur meðal 15% landsmanna. Spurning hvort fjarfundamenningin sem orðið hefur orðið til í Covid ástandinu hafi kennt landsmönnum að sjá lokaðar hurðir í nýju ljósi?

Vinsældir Stúfs hafa reynst sveiflukenndar í gegnum árin en hann hefur reglulega gert atlögu að forskoti Kertasníkis. Þeir sem fylgst hafa með hafa þó tekið eftir að vinsældir Stúfs hafa sveiflast nokkuð eftir því sem hann hefur gert sig gildandi utan jólasenunnar í menningarlífi Íslendinga. Þannig náðu vinsældir Stúfs hámarki árin 2019, eftir að bókin Stúfur hættir að vera jólasveinn var gefin út, og árið 2017 þegar Baggalútur og Friðrik Dór gáfu út jólalag sem skartaði jólasveininum smáa í aðalhlutverki. Þá er áhugavert að próteinsveinarnir tveir, Skyrgámur (7%) og Ketkrókur (6%), málsvarar ketómenningarinar, mælast nú örugglega í fjórða og fimmta sætinu.

Líkt og fyrri ár reka þeir Þvörusleikir, Gáttaþefur, Askasleikir og Pottaskefill restina en ósiðir þeirra virðast seint eiga upp á borðið meðal siðprúðra landsmanna.

Spurt var: Hver er þinn uppáhalds jólasveinn?
Svarmöguleikar voru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir og ég á engan uppáhalds jólasvein.
Samtals tóku 71,6% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust ekki eiga uppáhalds jólasvein.
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

Vinsældir jólasveinanna voru sem áður nokkuð ólíkar milli kynja. Stúfur reyndist vinsælasti jólasveinninn meðal kvenkyns svarenda og nefndu 33% hann sem sinn uppáhalds jólasvein, samanborið við 16% karla. Vinsældir Kertasníki minnkuðu um sjö prósentustig meðal kvenna á milli ára en 32% kvenna og 18% karla segja hann nú sinn uppáhalds jólasvein. Hjá karlkyns svarendum reyndist Hurðaskellir vinsælastur en 19% karla nefndu hann sem sitt uppáhald, samanborið við 11% kvenna. Þá var nokkra kynjaskiptingu einnig að finna á vinsældum próteinsveinanna en Skyrgámur (11% karla; 3% kvenna) og Ketkrókur (12% karla; 2% kvenna) mældust öllu vinsælli meðal karla þetta árið.

Nokkurn breytileika var einnig að sjá á vinsældum jólasveinanna eftir aldurshópum. Kertasníkir reyndist vinsælastur meðal svarenda 30 ára og eldri (27% 30-49 ára; 28% 50 ára og eldri) en öllu óvinsælli hjá svarendum yngsta aldurshópsins (20%). Stúfur reyndist vinsælastur meðal yngstu svarenda (29%) og fóru vinsældirnar minnkandi með auknum aldri en einungis 19% þeirra 68 ára og eldri sögðu hann sitt uppáhald. Athygli vekur að enginn svarenda elsta aldurshópsins nefndi Skyrgám sem sinn uppáhalds jólasvein, samanborið við 7-8% svarenda annarra aldurshópa en elstu svarendurnir voru aftur á móti líklegri en aðrir til að segja þá Bjúgnakræki (8%) og Gluggagægi (7%) sína uppáhalds jólasveina.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 10. til 16. desember 2020

DEILA