Orkubú Vestfjarða sendir Vestfirðingum og öðrum viðskiptavinum hátíðarkveðjur með óskum um farsæld á nýju ári, um leið og stiklað er á stóru í starfsemi fyrirtækisins á árinu 2020.
Árið byrjaði með látum
Flestum er það í fersku minni sem á gekk í veðrinu í desember 2019, þegar bæði flutnings- og dreifikerfi raforku á Íslandi varð fyrir miklu tjóni. Kerfi Orkubúsins kom vel út úr þeim óveðurskafla, en nýtt áhlaup í janúar 2020 setti flutningskerfið á Vestfjörðum úr skorðum og þá sérstaklega tengivirki Landsnets í Breiðadal. Það olli þó einnig ísingu með tilheyrandi straumleysi í fleiri tengivirkjum á norðanverðum Vestfjörðum. Dreifikerfi Orkubúsins fór því ekki varhluta af vandamálum vegna snjóa og ísingar, m.a. í aðveitustöð Orkubúsins á Patreksfirði.
Langvarandi straumleysi í aðveitustöð Landsnets í Breiðadal undirstrikaði ákveðinn veikleika í kerfi Orkubúsins í Önundarfirði, þar sem dreifikerfi veitunnar í Önundarfirði var ekki fullkomlega aðskilið tengivirki Landsnets. Þá kom einnig í ljós að varaafl á Flateyri var ekki nægjanlegt til að mæta svo löngu straumleysi í Breiðadal.
Aukning afhendingaröryggis
Í framkvæmdaáætlun ársins 2020 var lögð mikil áhersla á að auka afhendingaröryggi raforku á veitusvæðinu. Aukin áhersla var á aðveitustöðvar og afhendingaröryggi í þéttbýli, en á undanförnum árum hefur dreifbýlið haft hvað mestan forgang. Áfram var þó unnið að stórum verkefnum í dreifbýlinu. Á árinu hefur Orkubú Vestfjarða varið alls um 600 m.kr. til framkvæmda.
Dýrafjörður – Þingeyri
Í framhaldi af opnun Dýrafjarðarganga náðist mikilvægur áfangi fyrir dreifikerfið í Dýrafirði, með tengingu jarðstrengs Orkubúsins frá Mjólká að Þingeyri, en Þingeyri er einnig tengd Mjólká um Hrafnseyrar- og Þingeyrarlínu. Með tvöföldun tengingar við Þingeyri opnaðist möguleiki á að flytja þá færanlegu varaaflsstöð sem þar hefur verið staðsett undanfarin ár og verður hún sett niður á Flateyri til eflingar varaaflsins þar. Stöðina er hægt að færa til Þingeyrar eða til annarra staða hvenær sem er, til að mæta hugsanlegum uppákomum í kerfinu. Stefnt er að því að færa stöðina til Flateyrar nú í janúar.
Önundarfjörður – Flateyri
Í Önundarfirði hefur rekstraröryggi dreifikerfisins verið aukið verulega í ár, með því að búið er að aðskilja aðveitustöð Orkubúsins í Breiðadal frá aðveitustöð Landsnets. Það gefur möguleika á að nýta þær smávirkjanir sem eru í Önundarfirði, með varaafli Orkubúsins á Flateyri, ef tengivirki Landsnets er straumlaust. Þá hefur dreifikerfið í Önundarfirði verið eflt með því að lagður var jarðstrengur út í Valþjófsdal.
Sunnanverðir Vestfirðir
Unnið var að plægingu jarðstrengs frá Sauðlauksdal í Örlygshöfn. Þá var unnið stórt verkefni við stækkun heimtaugar fyrir Kalkþörungaverksmiðjuna á Bíldudal og vinna var hafin við endurnýjun tengivirkis og stækkun spennis í aðveitustöð á Patreksfirði. Lokið var við að leggja og tengja jarðstreng að Flókalundi, en þar var einnig tekin í notkun hraðhleðslustöð fyrir rafbíla í sumar.
Drangsnes – Reykhólasveit
Sett var upp nýtt rofahús og ný spóla í Reykhólasveit, sem auka mun afhendingaröryggi þar, sérstaklega í þeim tilfellum að keyra þarf varaafl. Sá hluti Drangsneslínu sem helst hefur valdið straumleysi í vondum veðrum var einnig settur í jarðstreng nú í byrjun vetrar.
Súgandafjörður
Ný borhola sem boruð var í Súgandafirði 2019, var tekin í notkun í vor. Afköst holunnar eru margföld afköst þeirrar borholu sem fyrir var og stefnt er að því að hægt verði að nota einungis jarðhita til upphitunar á Suðureyri í framtíðinni. Hingað til hefur rafketill verið notaður til að skerpa á jarðhitavatninu til að tryggja nægan hita í kerfinu. Aukin afköst borholunnar gefa m.a. möguleika á aukinni iðnaðarstarfsemi sem nýtir heitt vatn.
Slys í Breiðadal
Því miður varð það ekki svo að árið yrði slysalaust hjá fyrirtækinu. Mikinn skugga bar á starfsemi Orkubúsins þegar starfsamaður slasaðist alvarlega við störf sín í tengivirki Landsnets og Orkubúsins í Breiðadal í september. Snör handtök þeirra sem voru á staðnum og viðbragðsaðila skiptu þá sköpum við björgunina. Þakkir eru færðar þeim sem þar áttu í hlut. Starfsmaðurinn liggur enn á sjúkrahúsi og hefur þar fengið frábæra umönnun. Fyrir liggur að endurhæfingarferlið verður langt og strangt. Allir starfsmenn og stjórnendur Orkubúsins bera þá von í brjósti að starfsmaðurinn megi ná góðum bata á nýju ári og færi ég honum og fjölskyldunni hugheilar batakveðjur fyrir hönd okkar allra.
Verkefnin framundan
Á árinu 2021 verður m.a. haldið áfram við endurnýjun á spennum og aðveitustöð OV bæði á Patreksfirði og á Keldeyri í Tálknafjarðarbotni. Þá verða settar upp þrjár nýjar 150 kW hraðhleðslustöðvar á vegum Orkubúsins auk nokkurra minni hleðslustöðva fyrir rafbíla. Unnið verður að því að færa dreifikerfið í Gufudalssveitinni í jörð samhliða verkefnum í vegagerð auk fjölmargra annarra verkefna.
Gleðilegt nýtt ár!
Ísafirði 30. 12. 2020
Elías Jónatansson, orkubússtjóri