Varaafl bætt á 5 fjarskiptastöðum á Vestfjörðum

Varaafl hefur verið bætt á 68 fjarskiptastöðum um land allt í fyrri áfanga við umfangsmiklar endurbætur á fjarskiptastöðum. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum eftir mikil óveður sem gengu yfir landið í desember 2019. Settar hafa verið upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, rafgeymum bætt við á tíu lykilskiptistöðvum fjarskipta, tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, ljósleiðaratengingum fjölgað og ýmsar endurbætur gerðar á öðrum stöðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgönguráðuneytinu.

275,5  milljónum kr. var varið til verkefnisins  á vegum fjarskiptasjóðs og stefnt að því ða bæta 100 milljónum króna við á næsta ári.

„Óveðrið sem gekk yfir landið afhjúpaði marga veikleika í rafmagns- og fjarskiptakerfum landsins og boðaði ríkisstjórnin fjárfestingaátak sem er að klárast. Tilgangurinn er að tryggja fjarskiptaöryggi í óveðrum. Við ætlum að tryggja sem best að ef slíkt fárviðri geisar aftur sé til staðar varaafl og nægt rafmagn. Skipting framkvæmda fer eftir ástandi flutnings- og dreifikerfa rafmagns og varaafls en það kom í ljós að þessir innviðir þoldu hvað verst óveðrið á Norðurlandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Það er Neyðarlínan sem hefur haft veg og vanda af framkvæmdinni í samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið.

Fimm stöðvar á Vestfjörðum voru endurbættar. Þær eru  í Holti í Önundarfirði og Laugabólsfjalli í Arnarfirði. Urðarhjalla á Rauðasandi, Kvíafelli í Steingrímsfirði og Finnbogastaðafjalli í Árneshreppi.