Það er margt að varast

Undanfarna daga hefur Matvælastofnun varað við ýmsu.

Það getur verið ólöglegt varnarefni í sesamolíuog þess vegna varar Matvælastofnun við tveimur tegundum af Clearspring sesamolíu. Olíurnar innihalda varnarefnið etýlen oxíð sem er ekki leyfilegt í matvælaframleiðslu í Evrópu. Fyrirtækið Icepharma, sem flytur inn vöruna, hefur innkallað hana með aðstoð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Innköllunin nær ekki til 250 ml sesamolíu.

Þá varar Matvælastofnun við einni framleiðslulotu af Grissini sesam brauðstöngum. Varan inniheldur varnarefnið etýlen oxíð sem ekki er leyfilegt að nota í matvælaframleiðslu. Krónan, sem flytur inn vöruna, hefur innkallað hana með aðstoð Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs.

Þá varar Matvælastofnun neytendur með ofnæmi eða óþol fyrir hveiti (glúteni) við neyslu á Nawras Gele Vermicelli pasta. Varan inniheldur ofnæmis- og óþolsvaldinn hveiti (glúten) án þess að það komi fram í innihaldslýsingu. Miðausturlandamarkaðurinn, sem flytur inn vöruna, innkallar hana í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Þá heimsóttu tveir fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins Fiskikónginn á dögunum og skipuðu honum að taka nokkrar vörur úr sölu, þeirra á meðal harðfisk, hnoðmör, reyktan lunda og hákarl.

Umræddar vörur kaupir Fiskikóngurinn frá einstaklingum sem eru ekki með leyfi frá MAST til að verka og selja vörurnar en Kristján Berg Ásgeirsson, kóngurinn sjálfur, segist á Facebook velta því fyrir sér hvort fólk vilji að aldargamlar hefðir lognist út af.

Kristján segist hafa verið andvaka eftir heimsóknina, þótt hann fagni eftirlitinu almennt.

Það má því með sanni segja að það er margt að varast.