Tekjur Kerecis af sölu sáraroðs rúmlega tvöfölduðust milli ára

Aðalfundur Kerecis fór fram í síðustu viku og var streymt úr Hörpu. Á aðalfundinum var lögð fram sjálfbærni- og ársskýrsla félagsins þar sem m.a. kom fram að tekjur Kerecis af sölu sáraroðs á rekstrarári félagsins rúmlega tvöfölduðust (115%) milli ára. Einnig kom fram að félagið hefur sett sér sex markmið skv. sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að  megináhersla félagsins sé á uppbyggingu sárasöluteymis félagsins í Bandaríkjunum ásamt því að þróa nýja markaði og vörur fyrir nýjar ábendingar. Söluáætlun félagsins fyrir sáraroðið gekk eftir á árinu en COVID19 hafði þau áhrift að ekki fengust ný markaðsleyfi fyrir vörur félagsins. Seinkun á markaðsleyfum olli því að ekki komu til tekjur vegna nýrra markaða og vara eins og vonast hafði verið til.

Tekjurnar fyrir rekstrarárið sem var frá 1. október 2019 til 30. september 2020 voru 2,2 milljarðar en voru 1 milljarður á sama tímabili á árinu á undan. Sölu- og markaðskostnaður hækkaði um 43%, stjórnunar- og rekstrarkostnaður stóð í stað og rannsóknar- og þróunarkostnaður lækkaði um 40% að teknu tilliti til styrkja. Á sama tíma hækkaði framlegðarhlutfall félagsins úr 90% í 94%. EBIDTA tap lækkaði um 2/3 eða úr 840 mkr í 280 mkr.

Kerecis vex hraðast

Á aðalfundinum kom jafnframt fram að skv. greiningarfyrirtækinu SmartTRAK Business Intelligence er Kerecis það fyrirtæki sem vex langhraðast í Bandaríkjunum á markaði fyrir húðlíki. Markaðshlutdeild Kerecis jókst um 120% á árinu sem er um tvisvar sinnum meira en fyrirtækjanna  sem næst koma í markaðsvexti.

Stefnum að áframhaldandi vexti

„Það er frábært að við höfum náð að meira en tvöfalda tekjur okkar á árinu. Þegar COVID19 faraldurinn hófst vorum við hrædd um að hann myndi hafa neikvæð áhrif á reksturinn okkar og gripum til ýmissa sparnaðaraðgerða. Raunin er hinsvegar sú að sykursjúkir eru að leita seinna til læknis vegna sára sinna, sem þýðir að sykursýkissárin eru stærri þegar þeir koma og eru þá frekar meðhöndluð með flóknari vörum eins og sáraroðinu.“ Segir Guðmundur Fertram forstjóri Kerecis og bætir við „Áhersla okkar er áfram á vöxt en ekki arðsemi og stefnum við að því að vaxa hraðar en önnur fyrirtæki á markaði næstu árin. Ég er afskaplega þakklátur starfsfólki Kerecis fyrir framlag þeirra á þessum erfiðu COVID19 tímum og er alveg magnað að sjá hveru samhentur hópurinn er, og hversu ört við náðum að bregast við heimsfaraldrinum og grípa ný tækifæri á markaði.“

Stjórn Kerecis var endurkjörin, en í henni sitja Guðmundur Fertram sem er stofnandi félagsins, Ernest Kenney meðstofnandi, Franck Sinabian forstjóri Groupe GTF sem fjárfesti í Kerecis árið 2016, Andri Sveinsson meðeigandi í Novator og Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti lýðveldisins sem situr í stjórninni fyrir hönd Emerson Collective sem er fjárfestingarfélag Laurene Powell Jobs sem fjárfesti í félaginu árið 2018.