Suðureyri: nýr Einar Guðnason sjósettur

Á laugardaginn var sjósettur í Hafnarfirði nýr bátur fyrir Norðureyri ehf á Suðureyri. Báturinn fær nafnið Einar Guðnason ÍS og kemur í stað báts með sama nafni sem strandaði við Gölt fyrir rúmi ári.

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að nýi báturinn væri 15 metra langur og um 30 tonn að stærð. Hann verður gerður út í krókaaflamarkinu og er útbúinn beitningavél. Í áhöfn eru 4 menn og verða tvær áhafnir. Að sögn Óðinn kostar báturinn tilbúinn til veiða um 260 – 270 milljónir króna. Útgerðin fær bátinn afhentan í lok vikunnar og fer á veiðar fljótlega í framhaldi af því.

Vinnslulínan uppfærð

Einar Guðnason ÍS mun afla fyrir Fiskvinnsluna Íslandssögu ehf  og þar eru einnig framkvæmdir í gangi. Óðinn segir að Marel sé að uppfæra vinnslulínuna í húsinu og verður hún komin í gagnið í byrjun næsta árs.

Myndir: Magnús Jónsson.

Brúin í nýja skipinu er hin glæsilegasta.
DEILA