Smábátasjómenn höfnuðu því að setja grásleppuveiðar í kvótakerfi á framhaldsaðalfundi sínum fyrir helgina.
Tillagan sem greidd voru atkvæði um var stutt en skýr:
Aðalfundur LS hafnar öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.
27 atkvæði féllu með tillögunni, 16 voru andvígir henni og 3 sátu hjá. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta greiddu fulltrúar Vestfirðinga atkvæði gegn kvótasetningunni, en þeir voru frá smábátafélaginu Króki í Vestur Barðastrandarsýslu, Eldingu á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum í Strandasýslu.
Grásleppuveiðar hafa lotið öðrum reglum en almennt gildir um veiðar á botnfiski. Meðal annars á það sér skýringu í göngumynstrinu en grásleppan kemur til landsins á vorin, fyrst að norðausturhorninu og síðar á vestanverðu landinu. getur munað ríflega einum mánuði á því hvenær hægt er að hefja veiðar við Langanes annars vegar og í Breiðafirði hins vegar. Kvótasetningin myndi gefa útgerðum á austanverðu landinu meiri upphafskvóta miðað við síðustu ár þar sem til dæmis í ár voru veiðar komnar vel að hámarksveiði ársins og ráðherra stöðvaði veiðarnar áður en þær voru hafnar við Breiðafjörð.
Aðalfundurinn ræddi tillögur um það fyrirkomulag sem ætti að vera og vilja fundarmenn að stjórnunin tryggi að allir fái jafnmarga daga, að veiðarnar hefjist ekki fyrr en 20. mars í stað 10. mars og að aðeins þeir dagar teljist veiðidagar þegar net eru í sjó.
Þessum hugmyndum var vísað til stjórnar ásamt fleirum tillögum að breytingu á síðastgildandi fyrirkomulagi.
Fundurinn var rafrænn að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki tókst að ljúka aðalfundarstörðum og verður fundinum framhaldið næsta föstudag, 18. desember.
Sjávarutvegsráðherra hefur kynnt framvarp að lögum um kvótasetningu á grásleppu og samkvæmt heimildum Bæjarins besta eru stjórnarflokkarnir búnir að heimila framlagningu þess. Ekki er á þessari stundu vitað hvort fyrirvarar hafi verið settir um stuðning við frumvarpið.