Skóinn í gluggann!

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem staðfestar hafa verið á vef Bolungarvíkurkaupstaðar kemur Stekkjastaur, fyrsti jólasveinninn, til byggða aðfaranótt 12. desember það er aðfararnótt laugardags.

Honum fylgja bræður hans einn og einn í senn þar til Kertasníkir, sá síðasti, skilar sér aðfaranótt aðfangadags, 24. desember.

Jólasveinarnir þurfa að huga vel að sóttvörnum, nota grímu í fjölmenni, spritta hendur vel og þvo oft og reglulega, og sérstaklega ef þeir eru að setja eitthvað í skóinn hjá krökkunum.

Þríeykið treystir jólasveinunum:

„Þeir þekkja þetta vel. Hafa orðið vitni að ýmsum hamförum og upplifað slíkan faraldur áður. Þeir kunna að passa sig og aðra“.

Allir krakkar eru hvattir til að setja skóinn út í glugga næsta föstudagskvöld svo Stekkjastaur geti sett í skóinn.