Skipulagsstofnun kemur að þeirri niðurstöðu í áliti sínu á matskýrslu um fiskeldisumsókn Háafells í Ísafjarðardjúpi að ekki sé líklegt að fyrirhugað sjókvíaeldi hafi áhrif á efnistökunám íslenska kalkþörungafélagsins í nágrenni við Æðey og Kaldalón.
Fram kemur í matsskýrslunni að kemur fram að Háafell sé með útgefin starfsleyfi fyrir þrjár staðsetningar við Bæjahlíð sem séu nær fyrirhuguðum efnistökusvæðum en þau eldissvæði sem fjallað er um í matsskýrslunni. Háafell hafi lagt sig fram við að koma til móts við þarfir annarra og því hafi eldissvæðum verið hliðrað. Einnig leggur Háafell fram tillögur að lausn á samnýtingu svæðanna sem felst í að fyrirtækin samræmi starfsemi sína að því leyti að efnistaka fari fram á svæðum sem séu hvað lengst í burtu frá kvíum með fiski í.
Þá segir um aðstöðuna í Álftafirði að komi til stækkunar á hafnaraðstöðu í Súðavík sé Háafell tilbúið til að skoða þann möguleika að flytja eldi tímabundið úr Álftafirði á meðan á framkvæmdum stendur eða þá að flytja eldið alfarið utar í fjörðinn.
Þá liggur fyrir að Íslenska kalkþörungafélagið hefur stundað kalkþörunganám í nágrenni við sjókvíaeldi í Arnarfirði og að fyrirtækin sem þar eiga í hlut hafi gert samkomulag sín á milli um tilhögun starfsemi sinnar. Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að stofnuninni sé ekki kunnugt um að vandamál hafi komið upp í Arnarfirði vegna nálægðar kalkþörunganáms og fiskeldis. Þá hefur Íslenska kalkþörungafélagið ekki gert athugasemdir við fyrirætlanir Háafells í Ísafjarðardjúpi í umhverfismatsferlinu.
Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri þeirra mat að kalkþörunganámið og fiskeldið geti vel farið samn og þess vegna gerði félagið ekki athugasemd fyrirhugað fiskeldi í Djúpinu. „Okkar reynsla frá Arnarfirði er að þetta geti vel farið saman.“