Samband sveitarfélaga: atkvæði greidd í dag um lágmarksíbúafjölda

Frá fundi bæjarstjórnar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í dag verður haldið landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar verður tekin til afgreiðslu tillaga frá fulltrúum 20 sveitarfélaga innan sambandsins þess  efnis að breyta fyrri samþykkt frá 2019 um sameiningu sveitarfélaga á þann veg að hafna lögþvingaðri sameiningu.  Í gildandi samþykkt er kveðið á um að frá 2022 verði sveitarfélög með færri ibúa en 250 að sameinast öðrum og frá 2026 verði sveitarfélög með færri íbúa en 1000 að gera slíkt hið saman. Í tillögunni sem verður afgreidd í dag er lágmarksíbúafjölda ákvæðinu hafnað og þar með hafnað því að þvinga sveitarfélög til sameiningar.

Meðal flutningsmanna eru sveitarstjórnarmenn frá sex sveitarfélögum á Vestfjörðum, Reykhólahreppi, Tálknafirði, Bolungavík, Súðavík, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi.

Fulltrúar Vesturbyggðar greiddu atkvæði með þvingaðri sameiningu á aukaþinginu 2019 og hafa ekki boðað breytingu á þeirri afstöðu. Fulltrúi Strandabyggðar sat hjá í atkvæðagreiðslunni 2019 og sagði í samtali við Bæjarins besta í byrjun vikunnar að skiptar skoðanir væru um málið í sveitarstjórninni og ekki lægi fyrir hver afstaða Strandabyggðar yrði til tillögunnar.

Meirihluti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á móti lögþvingun

Þriðja sveitarfélagið á Vestfjörðum sem ekki á flutningsmann á tillögunni er Ísafjarðarbær, langfjölmennasta sveitarfélagið. Þar hefur komið í ljós að meirihluti bæjarstjórnar er á móti þvingaðri sameiningu. Þrír fulltrúar Í listans og tveir fulltrúar Framsóknarflokks hafa gefið það út. Aðeins tveir bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar styðja lögþvingaða sameiningu. Eru það oddvitar Í listans og D lista Sjálfstæðisflokks. Einn bæjarfulltrúi hyggst sitja hjá og einn bæjarfulltrúi hefur ekki svarað fyrirspurn um afstöðu sína.

Af þessu er ljóst að drjúgur meirihluti sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum styður framkomna tillögu sveitarfélaganna 20 og leggst gegn þvingaðri sameiningu sveitarfélaga.

Fjallabyggð einhuga gegn lögþvingun

Þá er að finna stuðning við tillöguna sem greidd verður atkvæði um í dag, meðal fleiri sveitarfélaga sem eru fjölmennari en 1000 manns. Má þar nefna að Fjallabyggð, sem varð til með sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Í bókun bæjarstjórnar, seem samþykkt var með atkvæðum allra bæjarfulltrúa segir að bæjarstjórn Fjallabyggðar taki  undir þau meginsjónarmið sem fram koma í framlagðri tillögu. „Bæjarstjórn telur affarsælla að sameining sveitarfélaga eigi sér stað með lýðræðislegum hætti og að þar ráði vilji íbúa sem og geta sveitarfélags til að standa undir lögbundnum hlutverkum sínum.“

 

DEILA