Reykjavíkurborg skuldar mest

Reykjavíkurborg er skuldsettasta sveitarfélagið hvort sem mælt er í beinum fjárhæðum eða sem skuld pr íbúa. Þetta kemur fram í upplýsingaritinu „Lykiltölur úr rekstri sveitarfélaga 2019″ sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út.

Teknar eru saman skuldir bæði A hluta og B hluta sveitarfélagsins. A hlutinn er sveitarsjóður sjálfur og B hlutinn eru stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins.

Skuldir borgarinnar voru í lok síðasta árs 2.631.000 kr/íbúa og eru 16% hærri en hjá Reykjanesbæ sem kemur í næst á eftir með 2.264.000 kr á hvern íbúa. Meðalskuldir pr íbúa yfir landið er 1.815.000 kr. Skuldir Reykjavíkur eru 45% hærri en landsmeðaltalið.

Á Vestfjörðum eru fjölmennu sveitarfélögin með miklar skuldir. Bolungavík skuldar 2.091.000 kr/íbúa og er það sjötta hæsta á landinu. Ísafjarðarbær er með 2.055.000 kr/íbúa og er í sjöunda sæti og skuldir Vesturbyggðar eru 1.977.000 kr/íbúa og er það 9. hæstu skuldirnar á landinu.

Skuldir sex sveitarfélaga á Vestfjörðum eru undir landsmeðaltali og skiptast þau í tvo hópa.  Strandabyggð er með 1.639.000 kr skuld pr íbúa, Tálknafjarðarhreppur 1.248.000 kr og Reykhólahreppur með 979.000 kr/íbúa.

Þrjú fámenn sveitarfélög eru í sérflokki með lágar skuldir. Súðavíkurhreppur skuldar 335.000 kr/íbúa, Kaldrananeshreppur 273.000 kr. og Árneshreppur skuldar minnst eða 237.000 kr/íbúa.

DEILA