Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað styrkjum að upphæð 76,5 milljónum króna til níu verkefna á vegum fimm landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 (aðgerð C.1). Alls bárust 28 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 777 m.kr. fyrir árin 2020-2023.
Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.
Verkefnin sem hljóta styrk eru:
Nýsköpunarnet Vesturlands. Verkefnið snýr að því að tengja saman þá aðila sem vinna að nýsköpun á Vesturlandi og efla þau nýsköpunarsetur og samvinnurými sem þegar eru til staðar. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlýtur styrk að upphæð kr. 19.000.000,- sem skiptist þannig: 11.000.000,- á árinu 2021 og 8.000.000,- á árinu 2022.
Vínlandssetur í Dalabyggð. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlýtur styrk að upphæð kr. 5.300.000,- á árinu 2020.
Hitaveita í Hrútafirði, mat á jarðhitasvæði og hugsanleg stækkun hitaveitu. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hlýtur styrk að upphæð um kr. 7.200.000,- á árinu 2021.
Sól í sveit – tóvinna, textíll og ferðamenn. Kynna á íslensku ullina, bjóða upp á námskeið og kennslu í textíl með nýtingu og vörusölu í huga. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hlýtur styrk að upphæð kr. 6.000.000,- á árinu 2021.
Friðlandsstofa – anddyri friðlands Svarfdæla í Dalvíkurbyggð. Stofnun og uppbygging friðlandsstofu. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hlýtur styrk að upphæð kr. 35.000.000,- sem skiptist þannig: kr. 10.000.000,- á árinu 2021, kr. 15.000.000,- árið 2022 og kr. 10.000.000,- árið 2023.
Hraðið. Uppbygging frumkvöðlaseturs á Húsavík og myndun klasa nokkurra stofnana. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hlýtur styrk að upphæð kr. 19.000.000,- á árinu 2021.
Gróðurhús í Öxarfirði. Markmið verkefnisins er að stuðla að frekari nýtingu á auðlindum svæðisins með því að taka skref í átt til uppbyggingar gróðurhúsa í tengslum við jarðhita. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hlýtur styrk að upphæð kr. 2.000.000,- á árinu 2021.
Austurland – áfangastaður starfa án staðsetningar. Taka saman í eina gátt þau tækifæri sem bjóðast varðandi starfsaðstöðu, kortleggja þörf og skrá rými sem bjóðast. Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hlýtur styrk að upphæð kr. 8.000.000,- á árinu 2021.
Skipaþjónustuklasi á Suðurnesjum. Kortleggja og skilgreina uppbyggingu nýs klasa á Suðurnesjum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hlýtur styrk að upphæð kr. 8.000.000,- á árinu 2021.