Orkumálastjóri: Umhverfisráðuneyti gegn vistvæni orkunýtingu

Súgfirðingurinn Guðni A. Jóhannesson, Orkumálastjóri gefur Umhvefisráðuneytinu ekki háa einkunn  í jólaerindi sínu sem birt var fyrir jólin.

Guðni rekur þar breytingar á Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem um langt árabil hefur verið starfræktur á Íslandi. Um næstu áramót verður skólinn á forsjá ISOR, íslenskra orkurannsókna og við það færist yfirstjórn skólans undir Umhverfisráðuneytið en hefur verið hjá Utanríkisráðuneytinu. Um þá breytingu segir orkumálastjóri:

Vakið og sofið í að girða fyrir vistvæna orku

„þar með verður yfirstjórn skólans komin undir umhverfisráðuneyti sem um árabil hefur verið vakið og sofið í því að girða fyrir nýtingu vistvænnar orku til atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Það verður hugsanlega ekki beinlínis trúverðugt þegar nemendum frá þróunarlöndum verður kennt að um þeirra umhverfi og náttúruvætti gildi allt önnur viðhorf en á Íslandi eða ef beinlínis verður farið að kenna hvernig tefja megi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu innviða og atvinnulífs með öllum þekktum ráðum.“

Guðni A. Jóhannesson víkur að gerð rammaáætlunar og segir að þegar hann hóf störf 2008 á Orkustofnun hafi verið unnið að öðrum áfanga áætlunarinnar. Það hafi gengið bærilega en við lögfestingu rammaáætunar hafi framkvæmd laganna verið falin Umhverfisráðuneytinu í stað Iðnaðarráðuneyti eins og áður var.

Það hafi ekki reynst góð ráðstöfun. Við gerð næsta áfanga, þriðja áfanga rammaáætlunar hafi  verkefnisstjórnin orðið fámennari og einsleitari og sama hafi gilt um faghópana og það starf sem þar var unnið.

Safna ávirðingum á virkjunarkosti

„Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf sem var illskiljanleg fyrir þá sem stóðu utan við starfið. Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun. Enda varð snemma ljóst að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu þessa áfanga og nú er vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið.“

Segir Guðni í erindi sína að ferlið sé orðin martröð og kominn tími til að finna nýjar leiðir. „Einföld leið er að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir sem fara með umhverfis og skipulagsmál til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi.“

Telji stofnanirnar að verðmæti séu í hætti geti þær frestað framkvæmdum og gert tillögu til Alþingis um tímabundna stöðvum meðan frekari rannsóknir fari fram. Alþingi taki þannig ákvörðunina um frestinuna.

DEILA