Náttúrufræðistofnun vill friða fossa í Hvalá

Náttúrufræðistofnun hefur birt lista yfir svæði sem stofnunin leggur til að verði tekin inn á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til friðunar. Meðal þeirra eru fossar í Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjarðará, samtals 8,92 ferkílómetra svæði. Innan skilgreindra fossasvæða eru gljúfur og gilbarmar, sem og að aðrir fossar í grennd við aðalfossinn, sem mynda hluta af landslagsheildinni segir í skýringum Náttúrufræðistofnunar.

Einnig er lagt til að Drangajökull fari inn á umrædda framkvæmdaáætlun og að friðlýst verði 1.281,22 ferkílómetra svæði. Þar er helsta ógnin talin vera virkjunarhugmyndir.

Morgunblaðið vekur athygli á þessu í dag.

Segir í skýringum Náttúrufræðistofnunar að við val á fossum inn á þennn friðunarlista sé horft til yfirvofandi ógnar. Í skýringum kemur fram að ógnin er fyrirhuguð Hvalárvirkjun.

Framvinda málsins verður sú að Umhverfisráðherra felur Umhverfisstofnun að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og kostnað við þær. „Í því ferli koma fram ýmsir aðrir hagsmunir sem geta haft áhrif á endanlegt val svæða en eru sem slíkir ekki grunnþættir í vali á svæðum til að viðhalda ákjósanlegri verndarstöðu vistgerða, vistkerfa eða tegunda“ segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að lokum mun Umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samráði við ráðgjafanefnd leggja fram þingsályktunartillögu um verndun svæða. Það verður svo Alþingi sem á lokaorðið um það hvaða svæði verða friðlýst.

Alþingi hefur tvívegis samþykkt Hvalárvirkjun í Rammaáætlun um virkjunarkosti.