Nanný Arna: styður ekki lögfestingu íbúalágmarks

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Í listans í Ísafjarðarbæ segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hún styðji ekki lögfestingu íbúalágmarks sem fyrirhugað er. Það mun þvinga sveitafélög með færri íbúa en 250 árið 2022 til að sameinast öðru sveitarfélagi og frá 2026 verða sveitarfélög fámennari en 1000 að sameinast öðru sveitarfélagi.

„Ég styð ekki lögfestingu íbúalámarks. Ákveðinn lámarksfjöldi íbúa getur ekki einn og sér tryggt góða og vandaða stjórnsýslu.

Mjög víðfeðm sveitarfélög munu eftir sem áður eiga erfitt með að veita sömu þjónustu á jaðarsvæðum eins og í stærri byggðakjörnum, einnig er tilhneiging til þess að draga frekar úr þjónustu í þeim byggðakjörnum sem liggja lengst frá uppruna valdsins, sama hvort um er að ræða ríki, sveitarfélög, einkafyrirtæki eða félagasamtök.

Ég tel alltaf betra að samstarf eigi upphaf í löngun og vilja þeirra sem að samstarfinu koma frekar en þvingunum.“

Fyrir landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í næstu viku liggur tillaga frá 20 fámennum sveitarfélögum um að hafna lögþvingaðri sameiningu.

Þar er hvatt til eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningum og stækkun sveitarfélaga. Ítrekaður er  stuðningur við flest meginatriði stefnumótandi áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem Alþingi hefur samþykkt.

Í tillögunni er minnt á mikilvæga liði í aðgerðaáætlun sem ekki er farið að vinna að, svo sem um styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fleiri mikilvæg atriði og hvatt til þess að unnið verði að þeim, en jafnframt hafnað lögfestingu íbúalágmarks. „Sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og lýðræðislegan rétt íbúa sveitarfélaga ber að virða, óháð stærð þeirra“ segir í tillögunni.

Um þá tillögu segir Nanný Arna að hún geti stutt margt sem fram kemur í henni.

Samgönguráðherra hefur lagt fram á Alþingi lagafrumvarp til þess að hrinda í framkvæmt þvingaðri sameiningu fámennra sveitarfélaga með því að setja lágmarksfjölda íbúa sem skilyrði fyrir tilvist sveitarfélagsins.

DEILA