Merkir Íslendingar – Hannes Hafstein

Hannes Þórður Hafstein, skáld og fyrsti íslenski ráðherrann, fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861.

 

Hann var sonur J. Péturs Havsteen, amtmanns á Möðruvöllum, og þ.k.h., Kristjönu Gunnarsdóttur. Bróðir Kristjönu var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri en móðir þeirra var Jóhanna, dóttir Gunnlaugs, ættföður Briem-ættarinnar. Hannes var því af Briem-ætt eins og forsætisráðherrarnir Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen og Davíð Oddsson.

 

Hannes bjó í ástríku hjónabandi með Ragnheiði Melsteð en þau þóttu óvenju glæsileg hjón og eignuðust fjölda barna.

Þau voru:
Sigurður (1891), Kristjana (1892), Ástríður (1893), Þórunn (1895), Sigríður (1896), Sofía Lára (1899), Elín Jóhanna Guðrún (1900), Ragnheiður (1903), Kristjana (1911), Sigurður Tryggvi (1913). Margir afkomenda Hannesar og Ragnheiðar hafa orðið þjóðkunnir.

 

Hannes var í heimaskóla hjá Eggerti Briem, ömmubróður sínum á Reynistað, og innritaðist tólf ára í Lærða skólann. Hann byrjaði ungur að yrkja og þótti snemma efnilegt skáld, lauk stúdentsprófi 1880 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1886.

 

Fyrstu árin í Kaupmannahöfn drakk Hannes í sig bókmenntir og stofnaði tímaritið Verðandi, ásamt Bertel E.Ó. Þorleifssyni, Gesti Pálssyni og Einari Kvaran og varð persónulegur vinur Georgs Brandes.

 

Hann varð sýslumaður Dalasýslu 1887, málflutningsmaður við Landsyfirréttinn og landshöfðingjaritari 1889, og sýslumaður Ísafjarðarsýslu 1895. Hann var kjörinn á þing fyrir Ísfirðinga 1900 og síðan fyrir Eyfirðinga.

 

Hannesi var falið að undirbúa heimastjórn á Íslandi og skipaður fyrsti ráðherrann þar 1. febrúar 1904 við upphaf heimastjórnar. Hann missti meirihluta á þingi við sambandslagakosningarnar frægu 1908 og vék eftir samþykkta vantrauststillögu í ársbyrjun 1909. Hann varð aftur ráðherra 1912-1914, og var bankastjóri Íslandsbanka.

 

Hannes Hafstein lést 13. desember 1922.

Skráð af Menningar Bakki.

DEILA