Merkir Íslendingar – Fríða Á. Sigurðardóttir

Fríða Áslaug Sigurðardóttir fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi í N-Ísafjarðarsýslu 11. desember 1940.

 

Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, bóndi í Hælavík og síðar símstöðvarstjóri á Hesteyri, og kona hans, Stefanía Halldóra Guðnadóttir húsfreyja. Fríða átti 12 systkini, meðal annarra Jakobínu Sigurðardóttur rithöfund.

 

Fríða var gift Gunnari Ásgeirssyni og eru synir þeirra Ásgeir og Björn Sigurður. Hún lauk cand.mag.-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1979. Hún starfaði sem bókavörður á Háskólabókasafni og Ameríska bókasafninu frá 1964 til 1970, var deildarfulltrúi við heimspekideild Háskóla Íslands frá 1971 til 1973 og stundakennari við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands frá 1973 til 1975.

 

Frá 1978 starfaði Fríða alfarið við ritstörf. Fyrsta bók Fríðu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt, kom út árið 1980. Hún sendi síðan frá sér tvö önnur smásagnasöfn, Við gluggann (1984) og Sumarblús (2000).

 

Þriðja skáldsaga Fríðu, Meðan nóttin líður (1990), hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1991 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992. Í umsögn dómnefndar Norðurlandaráðs segir: „Fríða lýsir í ljóðrænum texta þessarar bókar þörf okkar fyrir sögu og frásögn um leið og bókin lýsir hve erfitt það er að komast að eingildum sannleika um líf og list.“ Meðan nóttin líður hefur verið þýdd á Norðurlandamál og ensku.

 

Skáldsaga Fríðu, Í luktum heimi, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1994. Aðrar skáldsögur Fríðu eru Sólin og skugginn (1981), Eins og hafið (1986), Maríuglugginn (1998) og síðasta verk hennar, Í húsi Júlíu, sem kom út í október 2006. Einnig ritaði Fríða greinar um bókmenntir í blöðum og tímaritum og sendi frá sér ritgerð um leikrit Jökuls Jakobssonar auk þýðinga á erlendum ritum.

 

Fríða Á. Sigurðardóttir lést í Reykjavík 7. maí 2010.

Skráð af Menningar-Bakki.