Loforð um silfur reynist illa þeim er þiggur

Kæru Vestfirðingar og nágrannar

Undanfarna daga hefur fréttamiðillinn bb.is birt hér fyrirspurnir til kjörinna fulltrúa um afstöðu til sameiningarmála, hvort viðkomandi styðji lögþvingaða sameiningu með lögfestingu lágmarksíbúafjölda fyrir sveitarfélög. Um er að ræða hluta þeirra breytinga sem Siguðrður Ingi ráðherra samgöngu- og sveitarstjornarmála hefur lagt fram á alþingi ásamt boðuðum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga.

Ég hef ekki verið spurður af bb.is eða aðrir hér í Súðavíkurhreppi mér vitandi um afstöðu til þessara mála. Kannski vegna þess að hér vita flestir hvaða skoðun ég hef á þeim málum enda hef ég ítrekað tjáð mig um það við hvert tækifæri. Eða kannski af sömu ástæðum og málið í heild hefur farið í þann farveg sem það er í – öllum er sama um afstöðu þeirra sem byggja fámenn sveitarfélög varðandi framtíð þeirra.

Í þeirri viðleitni minni að vekja fólk af værum svefni í þessum málum hef ég látið ýmislegt út úr mér, bæði opinberlega og í samtali við fólk eða hópa fólks. Það er ekki af þeim hvötum að í mér sé sá hroki að geta bent og ásakað eða vandað um fyrir öðrum. Síður en svo. Hins vegar er það vegna þess að mér er í blóð borið að standa upp fyrir réttindum þeirra sem ég vinn fyrir í dag og samkvæmt minni sannfæringu. Felst enda í þessari lögþvingan svo röng nálgun á mótun samfélags sem frekast er unnt og lýsir að mínu mati hroka og vanvirðingu fyrir réttindum annarra.

Hvað felst í því að þvinga sveitarfélög með lagasetningu til þess að sameinast öðrum sveitarfélögum, en sæta ella handvirkri aðgerð í þá átt?

Svarið er í stuttu máli að þar með er farið gegn grundvallarskipulagi og grundvallarlögum sem íslenskt þjóðfélag byggir á síðan á þjóðveldsöld og raunar fyrr. Hreppar eru elsta eining samtryggingarkerfis á landinu þó víðar væri leitað og frelsi þeirra hefur verið varið meira og minna fram á okkar daga. Sveitarfélag er stjórnsýslueining sem starfar samkvæmt heimild í sveitarstjórnarlögum og er sjálfstæði hennar varið í stjórnarskrá. Þá eru lög um sveitarstjórnarmál byggð á þeirri meginlínu að virða skuli sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga sem eininga og er það sjálfsstórnarfyrirkomulag jafnframt varið af Evrópuráðssamningi um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga. Í öllu falli er áskilið að fólk í viðkomandi sveitarfélagi skuli koma að ákvörðun um sveitarélagið.

Þetta eru ekki léttvægar heimildir að fara gegn, grundvallar stjórnskipan landsins, en þessu til fulltingis er áratuga hefð fyrir því að sameiningar sveitarfélaga skuli valkvæð og að virða beri frelsi og rétt íbúa til þess að velja sér náttstað og búsetu undir stjórnskipan sem það kýs.

Merkilegt nokk þykir mér að Framsóknarflokkurinn skuli hlutast til um að fara með lögum gegn þeim sem hann sækir kjarnafylgi sitt í – dreifbýli og dreifðar og fámennar byggðir landsins. Það er ekki af pólitískum hvötum sem ég bendi á þessa aðkomu Framsóknarflokksins enda hef ég þegar bent þingflokki Sjálfstæðisflokks á það að sá flokkur telur sig vera sverð og skjöld sjálfsstjórnar og frelsis og sumir af hans fulltrúum ætla að láta ginnast í þessa vitleysu sem þetta er. Það felst líka ábyrgð í því að standa hjá þegar misrétti er beitt.

Og enn þykir mér merkilegra að fulltrúar Vesturbyggðar – afkvæmis umdeilanlegrar sameiningar – skuli láta blekkjast í það að halda að sameining minni sveitarfélaga á víð og dreif um landið komi til með að hafa jákvæð áhrif á Vesturbyggð. Vesturbyggð telur í dag liðlega 1000 íbúa, með því að tjalda til öllum þremur sveitarfélögum sem áður voru nær öðru þúsundinu. Öðru nær, Vesturbyggð mun heldur minnka við þetta enda fæst lítil hagkvæmni fyrir vikið að gleypa Tálknafjarðarhrepp. Og hér talar maður sem hefur búið bæði á Patreksfirði og í Tálknafirði og meira og minna alinn upp á Bíldudal.

Ég veit að margir muni hugsa mér þegjandi þörfina fyrir að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum í hördum nordan. Ekki falla í þá gryfju að halda að ég viti ekki hvað ég tala um þar. Alla tíð frá því ég flutti af Vestfjörðum hefur mér runnið blóðið til skyldunnar að tala máli þessa fjórðungs og látið einskis ófreistað í þeim efnum. Hefur mér þótt lítið til þess koma að fá fyrir það gagnrýni fólks sem heldur að við getum bara búið á SV-hluta landsins og þetta bara geri sig sjálft úti á landi. Er það allt frá máli Teigskógs yfir í flugvöll í Vatnsmýri sem ég hef látið til mín taka og það með hagsmuni þessa fjórðungs í huga.

Um Ísafjarðarbæ gilda sömu hugleiðingar og um Vesturbyggð. Sveitarfélagið hefur ekki burði í það að laga öll byggðarlög í kringum sig og gera þau samkeppnisfær við aðra landshluta. Í það minnsta er það ekki sjáanlegt í dag, þrátt fyrir viðleitni. Er það enda að vandi dreifðra byggða er djúpstæðari og flóknari en svo að hægt sé að planta þar nokkrum sprotafyrirtækjum og bíða ávaxtanna. Þetta eru fallegir staðir með merka sögu sem Ísafjarðarbæ tilheyra í dag sem nk. úthverfi. Og svo ekki gæti misskilnings, hjarta mitt slær fyrir þá staði líkt og aðra byggð hér fyrir vestan. Ég tala alveg hreint um það að mér þykir jafn vænt um þann nágranna hér í 21 km fjarlægð frá Súðavík og um mitt gamla byggðarlag, Vesturbyggð. Sveitarfélögin eiga það sammertkt að hafa gengið í gegnum þrengingar og hvort um sig hefur bætt á sig hreppum sem þau ráða misvel við að þjónusta sem sitt heimahérað. Það er kannski vegna þess að 100 km verða ekki styttri vegalengd þrátt fyrir að stjórnsýslan færist úr einum kjarna í annan. Og allt kostar peninga og verður dýrara því lengra sem þeim er veitt frá miðstöð stjórnsýslu. Ég veit, Ísafjarðarbær er bæði Suðureyri, Flateyri og Þingeyri ásamt Skutulsfjarðarbænum Ísafirði sem svo var nefndur í den. En er hann það í raun?

Hér á Vestfjörðum eru merkir staðir með merka sögu og fremstir meðal jafningja á flestum þeim sviðum sem við kærum okkur um að berast til metorða á. Haldið því áfram, elskið nágranna ykkar en ekki reyna að kæfa þá með alúð. Samstarf við okkur í Súðavíkurhreppi gefur ykkur nágrönnum okkar örugglega ekki minna en okkur sem þiggjum þjónustu eða samstarf, það sama á við Tálknafjörð og Vesturbyggð.

Þetta er í grunninn eitt af okkar aðalsmerkjum á Vestfjörðum, sem fyrir margt löngu neituðum yfirgangi og ásælni með lögþvingan, enda mættu Vestfirðingar til fundar á Kollabúðum þegar eitthvað var og hét sem heitir dugur gegn slíkri ásælni.

Ekki láta ginna ykkur í þetta með loforði um silfur úr hnefa, enda hefur það jafnan reynst illa þeim er þiggur og rífur um leið grið við sinn blóðbróður. Loforð um 1200 milljónir til handa þriggja sveitarfélaga felur í sér fleira en það eitt að setja einn bæjarstjóra yfir sveitarfélag að lokinni sameiningu. Slíkt loforð ætlar ríkið að efna á 7 árum með greiðslum til handa sveitarfélags sem mun teljast standa uppi að lokinni sameiningu. Það kemur þannig ekki í hlut Súðavíkurhrepps eða Bolungarvíkurkaupstaðar að eyða þeim peningum heldir Ísafjarðarbæ. Og þá er hluti þess ætlað beint í niðurfærslu skulda en ekki til framkvæmda í langþráð íþróttamannvirki eða annað sem hugur girnist.

Það er farsælla að tryggja sig blóðböndum í bróðerni en með því að knésetja einhvern fyrst til sátta.

Bragi Þór Thoroddsen

Lögfræðingur og sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.