Í ljósi veðurskilyrða og slæmrar færðar frestast afhending Listagjafa á Vestfjörðum sem fara átti fram dagana 19. og 20. desember.
Allir þeir sem hafa pantað halda sinni gjöf sem verður í staðinn afhent helgina 22.-24. janúar 2021.
Listagjafirnar eru verkefni sem listafólk vinnur í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og kemur í framhaldi af viðbragðsverkefni þeirra Listagjöf sem vakti mikla lukku í Reykjavíkurborg í byrjun nóvember.
Listafólk í fremstu röð mun sækja fólk heim og flytja stutta listgjörninga, tónlist, ljóðlist, sirkusatriði eða dans sem gefendur geta pantað fyrir ástvini í gegnum vefinn.
Einnig verður boðið upp á rafrænar listagjafir til þeirra sem geta ekki tekið á móti gjöf í eigin persónu vegna sóttvarnatilmæla eða staðsetningar.
Áætlað er að hið minnsta 100 listamenn muni að þessu sinni dreifa allt að 750 listagjöfum á tugi áfangastaða um land allt.