Laxeldi í Djúpinu: kæru vísað frá

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur vísað frá kæru Landssambands veiðifélaga þar sem kærð var afgreiðsla Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019 á frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna ársframleiðslu Arnarlax á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Var kærandi ekki talinn hafa rétt til að kæra umrædda afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Kæran var lögð fram 26. júní 2020 á hendur Skipulagsstofnun og kærð sú ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019 að meðferð og afgreiðsla umsóknar Arnarlax ehf. um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi fari eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. ákvæði II til bráðabirgða. Var þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að afgreiða umsókn Arnarlax ehf. samkvæmt núgildandi lögum nr. 71/2008.

Með lögunum 2019 var veruleg breyting gerð og hafði það því verulega þýðingu fyrir fyrirtæki sem áttu óafgreiddar umsóknir þá að þær yrðu afgreiddar samkvæmt þeim lagaákvæðum sem giltu fram að gildistöku nýju laganna. Ákvað Alþingi því að setja reglur um það  hvenær óafgreidd mál yrði lokið samkveæmt eldri lögum og hvenær samkvæmr nýjum lögum. Taldi Landssamband veiðifélaga að  í þessu tilviki ætti að miða við nýju lagaákvæðin. Það hefði þýtt að byrja hefði umhverfismatsferlið að miklu leyti upp á nýtt auk þess að þrengja að úthlutun eldissvæða.

Landssamband veiðifélaga taldi að frummatsskýrslu hefði verið verulega áfátt og að Skipulagsstofnun hefði átt að hafna henni. Gagnrýnt var að Skipulagsstofnun hefði tekið hana gilda og veitt leiðbeiningar um lagfæringar á frummatsskýrslunni og gefið fresti til að lagfæra þá. Endanleg skýrsla hefði verið skilað inn eftir gildistöku nýju laganna og ætti því málsmeðferð að fara eftir nýjum ákvæðum fiskeldislaga.

Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu sé ekki stjórnvaldsákvörðun sem veiti almennan kærurétt. „Í þessu sambandi er rétt að benda á að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður almennt ekki kærð til kærustjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt“ segir í úrskurðinum og er þá vísað til þess að afgreiðslu umsóknar um eldi er ekki lokið þótt fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu heldur fer málið til Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar sem veita starfsleyfi og rekstrarleyfi og útgáfa leyfanna, þegar þar að kemur, sé kæranleg.

Landssamband veiðifélaga kærði einnig með sömu rökum umsókn  Arctic Fish um laxeldi í Djúpinu en dró þá kæru til baka í sumar.

DEILA