Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin er ein þeirra bóka sem út komu nú fyrir jólin. Höfundur er Sigurður Ægisson, guðfræðingur og þjóðfræðingur, en útgefandi er Hólar ehf.
Hér er gripið niður í kaflann um langvíuna. Önnur nöfn hennar eru fugl, langnefja, langvé, langvigi, langvii, langvígi, langvíi, lómvía, stórfugl (notað vestra um langvíu og nefskera (stuttnefju)), svartfugl og svartfygla (hvorttveggja safnheiti yfir álku, langvíu og stuttnefju), varró. Eins þekkist orðið langvíukóngur. Í Grímsey var það notað yfir fugl sem vantaði dökka litarefnið í nef og fætur og var þar nú appelsínugulur. Í Vestmannaeyjum er það notað um hvíthöfða fugl. Og loks eru það geirvía, hringavía, hringeygja, hringlangnefja, hringvíi og taumvía, allt notað yfir hringvíu. Ungi langvíunnar nefn(d)ist pysja.
Íslensk þjóðtrú er fáorð um langvíuna, en svartfugl — og hún þar með talin — á hafi úti átti að boða fisk á þeim stað, eins og lesa má hjá Jónasi Árnasyni rithöfundi í Útvarpstíðindum árið 1953:
[S]vartfuglinn sést nú ekki nema einn og einn á stangli, því að hann hefur verið skotinn svo miskunnarlaust, (og eru þar með úr sögunni þær vísbendingar um aflahorfur, sem hann veitti sjómönnum samkvæmt þeirri gömlu reynslu að þar sem mikið er samankomið af svartfugli á sjónum, þar er og mikið samankomið af fiski fyrir neðan).