Á vefsíðu Reykhólahrepps er skemmtileg saga af kisunni á Gróustöðum sem brá sér í borgarferð.
Fyrir tæplega 2 vikum þurftu þau Bára og Stefán á Gróustöðum í að fara suður til tannlæknis með fjölskylduna.
Það út af fyrir sig er ekki beinlínis frásagnarvert, en er þau koma út af tannlæknastofunni um einum og hálfum tíma seinna sjá þau kött sem var að snúast á bílastæðinu. Þeim fannst skemmtilegt að þessi köttur var alveg nauðalíkur kisunni þeirra.
Þegar heimsókninni til tannlæknisins og öðrum útréttingum var lokið, var haldið heimleiðis.
Það uppgötvast svo fljótlega eftir að heim er komið, að heimiliskisan er hvergi sjáanleg. Auglýst var eftir henni á samfélagsmiðlum en ekkert kom út úr því til að byrja með.
Það var nú alvarlega farið að hvarfla að þeim á Gróustöðum að þessi köttur sem þau sáu fyrir utan tannlæknastofuna hefði eftir allt saman verið kötturinn þeirra.
Það er svo skemmst frá að segja, að góðhjörtuð kona sem býr ekki langt frá títtnefndri tannlæknastofu, tók að sér kisuna og í gegnum gæludýrasíðu á netinu hafðist upp á eigendunum á Gróustöðum!
Kötturinn hafði sum sé laumað sér í húddið á bílnum á hlaðinu á Gróustöðum, sennilega grunlaus um að til stæði að fara af bæ. Á suðurleiðinni stoppuðu þau í Borgarnesi og fengu sér hressingu, og það tekur dálitla stund að fóðra 6 manns, en kötturinn nýtti ekki það tækifæri til að losna úr bílnum.
Vill fjölskyldan á Gróustöðum koma þakklæti til allra sem stóðu að leit og björgun á kisu.