Júlíus Geirmundsson ÍS: 18 dagar milli símtala við sóttvarnalækni

Verkalýðsfélag Vestfirðinga gerir upp sjóprófin og birtir greinargerð um vitnisburðinn á heimasíðu félagsins.

Þar kemur fram að skipstjóri hafi strax á öðrum degi veiðiferðar haft samband við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum vegna veikinda um borð, sem sagði skipstjóra að hann þurfi að koma með manninn í land í sýnatöku þar sem það sé eina leiðin til að vita hvort um Covid sé að ræða. Skipstjórinn viðist hins vegar hafa litið svo á að hann þyrfti ekki að fara í land þar sem ekki væri um staðfest smit að ræða.

Samkvæmt því sem fram kom, segir í frásögn Verkalýðsfélagsins sló skipstjóri á ótta skipverja með þeim orðum að hann væri í sambandi við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum sem teldi þetta vera pest. Þá kom fram að annað símtal skipstjóra til umrædds læknis skráði læknir hjá sér 18 dögum eftir fyrra samtalið og var skipið þá væntanlegt í land til olíutöku.

Þá segir á vef félagsins:

„Efnislega um veiðiferðina má segja að ljóst sé að Covid hafi verið blákaldur raunveruleiki okkar manna á dekki frá fyrstu dögum veiðiferðarinnar sem reyndi verulega á þá bæði andlega og líkamlega. Af spurningum lögmanna sjóprófsþola og vitnisburði vélstjóra virðist vera um annan veruleika að ræða bæði í vél og í brú. Þar álitu menn að um einhverja pest væri að ræða. Samskiptaleiðir um borð eru augljóslega ekki skilvirkar, en virðast upplýsingar um Covid ekki hafa ratað hvorki í vél né í brú.“

Sjá vefsíðu Verkalýðsfélagsins:

https://verkvest.is/frettir/Sjoprofi_lokid/