Ísafjarðarkirkja

Í júlí 1987 skemmdist Ísafjarðarkirkja, Eyrarkirkja, mikið í bruna, það mikið að hún varð ónothæf.

Ákveðið var að byggja nýja kirkju á sama stað og var gamla kirkjan tekin niður og sett í geymslu.
Reiknað var með að mögulegt væri að endurbyggja hana síðar á nýjum stað.

Nýja kirkjan var nokkuð stærri að grunnfleti en sú gamla. Kirkjuskipið er með 490 sætum bæði niðri og á svölum.
Í byggingunni er safnaðarsalur og skrifstofur starfsfólks.

Þar sem grafir höfðu verið nærri veggjum gömlu kirkjunnar, reyndist nauðsynlegt að færa nokkrar grafir vegna undirstaða nýju kirkjunnar.
Nokkrar grafir, alls 31, eru þó undir gólfi nýju kirkjunnar.

Framkvæmdir hófust við kirkjubygginguna vorið 1992 og var hún vígð vorið 1995.