Ísafjarðarbær: vinnutíminn styttur um 4 klst á viku

Innan Ísafjarðarbæjar er unnið að utfærslu á vinnutímastyttingu í samræmi við ákvæði síðustu kjarasamninga og stefnt að því að hjá nokkrum  stofnanum bæjarins muni nýtt vinnutímasamkomulag taka gildi þann 1. janúar líkt og tiltekið er í kjarasamningum. Útfærsla á slíku samkomulagi þarf þó að vera samþykkt af bæjarstjórn.

Fram kemur í minnisblaði mannauðsstjóra sem lagt var fyrir bæjarráð að ákveðið var að fara strax í ýtrustu styttingu sem felur í sér að grein 3.1 um matar- og kaffitíma verður óvirk. Starfsmenn selja 15 og 20 mínútna kaffitíma sína, auk þess sem 13 mínútna kjarasamningsbundin stytting á daglegum starfstíma bætist við. Í heildina eru þetta því 48 mínútur á dag eða 4 klst. á viku miðað við 100% starf.

Vinnutímasamkomulag er mótað af starfsmönnum í samráði við forstöðumann. Í samkomulagi hverrar stofnunar er útlistað hvernig fyrirkomulagi hléa skuli háttað, að uppsöfnun styttingar eigi ekki við þegar kemur að veikindum, orlofi og/eða rauðum dögum og að „skreppum“, þ.e. einka- eða fjölskylduerindum á vinnutíma skuli útrýmt. Einnig er fjallað um að ávinnsla réttinda verði með sama hætti og nú tíðkast.

Þar sem nokkrar stofnanir hafa ekki enn náð að skila inn formlegu vinnutímasamkomulagi og nokkur tímapressa er komin á að samkomulag fyrir hverja þeirra sé tilbúið fyrir 1. janúar næstkomandi, er lagt til að bæjarstjórn veiti bæjarstjóra umboð til að samþykkja eða hafna fyrir þeirra hönd, vinnutímasamkomulagi sem hver stofnun bæjarins fyrir sig leggur fram. Ávallt er gengið út frá þeirri grunnforsendu að vinnutímasamkomulag sé ekki kostnaðaraukandi og að sama þjónustustigi sé viðhaldið.

Fyrirliggjandi útfærsla

Helstu niðurstöður/útfærslur á vinnustyttingu sem þegar hafa verið útfærðar:
• Dagleg stytting, s.s. á bæjarskrifstofum (sviðum), áhaldahúsi (halda inni matartíma), upplýsingamiðstöð, hafnir (halda inni matartíma).
• Vikuleg stytting, s.s. á Byggðasafni, skjala- og ljósmyndasafni.
• Á tveggja vikna fresti eða mánaðarlega s.s. á bókasafni, slökkviliði.
• Mánaðarlega, s.s. á Hvestu (í vaktaplan).

Skoðuð verði nánar útfærsla á vinnutímastyttingu á leikskólum sveitarfélagsins, á þann hátt að vinnutímastytting starfsmanna komi til framkvæmda jafnóðum eins og hugmyndafræðin um vinnutímastyttingu gengur út á.

Bæjarstjórn tekur málið til afgreiðslu á fundi sínum síðar í dag.

 

DEILA