Ísafjarðarbær: 5% lækkun fasteignagjalda og milljarður í framkvæmdir

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins var inntur eftir því helst fælist í framlagðri fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og hverju hann svaraði gagnrýni Í listans sem fram kom á síðasta bæjarstjórnarfundi.

„Framlögð fjárhagsáætlun bæjarins er ákveðin varnarsigur enda er gert ráð fyrir að bærinn skili um 150 m.kr. afgangi. Hagnaðurinn er þó að mestu tilkomin vegna söluhagnaðar en gert er ráð fyrir að selja um helming, fimmtíu íbúðir, íbúða í eigu Fasteigna Ísafjarðarbæjar hf. Þar er hugmyndin að minnka eignir og skuldir bæjarins sem dregur úr áhættu og gerir okkur kleift að sækja fram á öðrum sviðum s.s. með þátttöku í nýjum íbúðarverkefnum og byggingu lýðheilsuhallar (knatthús) en gert er ráð fyrir að það verði klárað fyrir næsta haust.

 

Varðandi sölu á íbúðum FastÍs þá er það orðið þannig í fyrsta sinn í áratugi að eignir eru metnar meiri en skuldir. Því teljum við tímabært að losa um þessar eignir, annarsvegar er verið að skoða að selja íbúðir þar sem við eigum heil hús inn í óhagnaðardrifin leigufélög sem myndu tryggja leigjendum áframhaldandi leigu. Hinsvegar með beinni sölu til núverandi íbúa á mjög hagstæðum kjörum sem gerðu íbúm kleift að eignast þær íbúðir sem  þeir búa á kjörum sem hefðu minni eða svipaða greiðslubirði og þeir eru að borga í leigu núna. Með þessu væri áfram tryggður virkur leigumarkaður í bænum og þessi sala ætti þ.a.l. ekki að hafa áhrif á fasteignamarkaðinn sem slíkan.

 

En áskoranirnar eru líka margar. Launakostnaður er að hækka gífurlega á milli ára eða um 10% og engin innistæða er fyrir þeim í rekstri bæjarins. Það veldur því að sá hluti bæjarins sem rekin er fyrir skattfé (Aðalsjóður) s.s. skólar, velferðarmál, íþrótta- og æskulýðsmál og umhverfismál eru rekin með verulegu tapi eða um 250 m.kr. Til lengri tíma gengur það ekki og því þarf að leita leiða til að draga úr kostnaði sem er 60% launakostnaður. Því verður ekki hjá komist að reyna að draga úr launakostnaði sem hlutfalli að tekjum.

 

Á móti kemur að útsvarstekjur okkar eru enn að vaxa, þó ekki í takt við aukin kostnað, enda er atvinnustig nokkuð hátt. Tekjur frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa dregist saman en Jöfnunarsjóður en næst stærsti tekjustofn bæjarins. Ekki er gert ráð fyrir tekjum af skemmtiferðaskipum næsta sumar í áætlunum bæjarins en árið 2019 voru þær um 150 m.kr.

 

Þrátt fyrir þetta verða fasteignagjöld sem hlutfall af virði eigna lækkuð um 0,06 prósentustig eða 5%.

 

Gert er ráð fyrir að framkvæma fyrir á annan milljarð króna á næsta ári. Bera þær hæst lýðheisluhöll (550 m.kr.) og lenging og landfylling á Sundabakka (670 m.kr.) Einnig er fyrirhugað að endurbæta gangstéttir og leikvelli í Holtahverfi, setja upp varmadælu í Íþróttamiðstöðinni á Þingeyri, innrétta 3 nýjar íbúðir á 4. hæð á Hlíf þar sem að dægradvöl var áður og selja þær. Einnig að að setja fjármagn í tjaldstæði á Flateyri og Suðureyri sem og hefja vinnu við gerð framkvæmdaáætlunar í fráveitumálum en það er risastórt verkefni sem unnið verður á næstu 10 árum a.m.k.

 

Það verður því nóg að gera í Ísafjarðarbæ á næsta ári og vonandi verður hann enn betri bær að búa í við lok næsta árs en hann er í dag.“

 

DEILA