Hátíðargleði gæludýranna – Það er margt að varast

Það er margt að varast fyrir eigendur gæludýra um jól og áramót.

Bæði hundar og kettir geta tekið upp á því að éta gjafabönd og bandskreytingar.
Ef böndin festast á leið sinni í gegnum meltinguna geta þau skapað mikla hættu fyrir dýrið. Stundum festist hluti af spottanum utan um tungu þó hluti af honum gangi niður.
Ef spotti er kominn í maga eða þarm og gengur svo aftur úr dýri eða upp úr því er mjög mikilvægt að alls ekki toga í spottann þar sem það getur skorið þarmana eða vélindað eins og hnífur. Leitið strax til dýralæknis.

Hundar sérstaklega geta tekið upp á því að bíta í jólaseríur og geta þá fengið óþægilegt rafstuð.

Flest tré eru ekki mjög eitruð en geta samt valdið niðurgangi og uppköstum ef þau eru étin.

Blóma- og kertaskreytingar geta verið varasamar. Gæludýr vara sig oft ekki á kertaljósum og eiga það til að brenna sig og kveikja í feldinum ef þau fara of nálægt. Ófáir kettir hafa kveikt í veiðihárunum í þeirri tilraun að þefa af kertunum. Reynið að setja logandi ljós þar sem dýrið kemst ekki að því.
Ef dýr fá heitt kertavax framan í sig getur þurft að skoða hvort það hafi brennt eða skaðað hornhimnu og ef dýrið pýrir augu getur það verið einkenni um skaða. Jólastjörnur, mistilteinn og önnur jólablóm eru mildilega eitruð ef þau eru étin og geta valdið slefi, uppköstum, niðurgangi.

Rafhlöður geta verið hættulegar vegna þungmálmainnihalds og sýru eða geta valda stíflu. Ef þig grunar að gæludýrið þitt hafi gleypt rafhlöðu hafið samband við dýralækni.

Desember og janúar eru oft köldustu mánuðir ársins og því tíminn sem frostlögur er dreginn fram. Frostlögur er sætur og getur því verið freistandi fyrir gæludýr að smakka á ef hann er aðgengilegur. Jafnvel mjög lítið magn getur valdið alvarlegri eitrun og nýrnaskaða og þarf því umsvifalaust að komast til meðferðar hjá dýralækni ef grunur leikur á að dýrið hafi komist í frostlög.

DEILA