Umhverfisráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi um stofnun hálendisþjóðgarðs.
Strax vakti athygli hversu mikil andstaða er við málið hjá samstarfsflokkum VG í ríkisstjórn. Almenn og vel ígrunduð andstaða er við málið hjá hagsmunaaðilum landið um kring, svo sem bændum, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem starfa í og við fyrirhugaðan þjóðgarð svo ekki sé talað um einstaklinga og félagasamtök sem hafa áhyggjur af frjálsri för fólks um svæðið, en andstaða samstarfsflokka VG í ríkisstjórn er meiri en reiknað var með.
Formaður Framsóknarflokksins birti runu fyrirvara sem minnti helst á það þegar flokkurinn var forðum til í aðild að Evrópusambandinu, að því gefnu að Evrópusambandið aðlagaði sig Íslandi en ekki öfugt, úr því varð auðvitað ekki neitt. Þessir fyrirvarar voru settir fram nokkrum dögum eftir að þingmenn og ráðherrar sama Framsóknarflokks afgreiddu málið í gegnum ríkisstjórn og eigin þingflokk.
Á sama tíma hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins allt á hornum sér hvað hugmyndina varðar, nýbúnir að samþykkja í eigin þingflokki að málið gangi til þinglegrar meðferðar. Vafalaust í trausti þess að Miðflokkurinn spyrni kröftuglega við fótum.
Stuttur pistill sem þessi býður ekki upp á djúpa greiningu efnisatriða í máli sem þessu, en það verður að draga fram kjarnarökstuðninginn í málinu öllu, það er að þarna verði til STÆRSTI þjóðgarður í Evrópu og að með stofnun hans náist fram sjálfstæð ímyndar- og markaðsleg markmið. Þessi nálgun er ættuð frá Texas, þar sem allt er „stærst og best“. Hamborgararnir eru svo stórir að þú getur ekki borðað þá, kók glösin eru svo stór að þú getur ekki haldið á þeim, allt er „stærra en lífið“. Ég er ekki viss um að það séu skilaboðin sem haganlegt sé að setja fram gagnvart þeirri stórkostlegu náttúru og á köflum viðkvæmu, sem við eigum á hálendinu.
Málið er ótímabært og þeirrar gerðar að alls ekki er skynsamlegt að ana að ákvörðun. Í öllu falli er ótækt, líkt og umhverfisráðherra hefur sjálfur sagt, að afgreiða málið án þess að rammaáætlun um orkunýtingu hafi komið til meðferðar Alþingis og verið afgreidd. Sjálfur mun ég áfram tilheyra hinum „örlitla grenjandi minnihluta“ eins og Steingrímur J. Sigfússon kýs að kalla þá sem hafa efasemdir um að leggja 30% landsins undir svokallaðan hálendisþjóðgarð.
Bergþór Ólason, alþm.