Flateyri: hugmyndir um 2,5 milljarða króna vegabætur

Vegagerðin hefur kynnt hugmyndir um framkvæmdir á veginum frá Flateyri inn Hvilftarströndina að þjóðveginum til Ísafjarðar, um 7 km leið, sem ætlað er að tryggja eftir föngum að vegurinn haldist opinn í vondum veðrum. Á umræddum vegarkafla eru snjóflóðasvæði sem valda því að vegurinn lokast mjög oft, einkum þegar veðrin eru hvað verst.

Það er Gísli Eiríksson, verkfræðingur sem hefur haft til skoðunar hvað helst gæri verið til útbóta. Gísli segir að á leiðinni Flateyri – Ísafjörður sé sennilega mesta snjóflóðhættan í Breiðadal og á leiðinni til Þingeyrar sé hún í Bjarnadal.

Annars vegar er vegarkaflinn frá Hvílft út að Sólbakka og hins vegar er vegarkaflinn frá Breiðadal að Selabóli.

Á ytri kaflanum sem er um 250 metrar er talið álitlegast að byggja vegskála og líklega sveigja veginn upp að sjávarbakkanum við Sólbakka og vera með vegskálann fram með bökkunum og fara undir garðinn.  Lausleg kostaðaráætlun er um 1 milljarður króna.

Innan á Hvílftarströndinni við Selaból er annar erfiður snjóflóðakafli nærri 2 km. Þar er varpað fram þeirri hugmynd að færa veginn yfir Holtsósinn og tengja hann við þjóðveginn við Holt. Kostnaður er áætlaður lauslega um 1,5 milljarður króna með 160 m brú yfir ósinn.

Hugmyndirnar fara nú til frekari úrvinnslu hjá stjórnvöldum en snjóðflóðin í janúar síðastliðnum urðu til þess að Vegagerðin fékk Gísla Eiríksson til þess að gera þessa greinargerð þar sem farið er  yfir mögulega kosti til útbóta.

Snjóflóðakort af veginum u Selakirkjuból.
DEILA