Fjölga náms- og starfstækifærum fyrir ungt fólk með fötlun

Verkefnishópur um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla hefur skilað skýrslu til mennta- og menningarmálaráðherra og þegar hefur verið hafist handa við ákveðnar aðgerðir byggðar á tillögum hópsins.

„Nemendur sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla eru fjölbreyttur hópur og það er mikilvægt að þeirra bíði fjölbreytt tækifæri til þess að halda áfram að læra og þroskast í starfi, skóla og/eða tómstundum. Hópurinn beindi sjónum sínum að þeim úrræðum sem þegar eru til staðar og sóknarfærum sem liggja í aukinni samvinnu, sýnileika og markmiðasetningu fyrir þá fjölmörgu sem koma að því verkefni að tryggja samfellu í þjónustu við ungt fólk með fötlun,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Verkefnishópinn skipuðu fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landsamtökunum Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, aðstandendum og fulltrúum Átaks, félags fólks með þroskahömlun.

Tillögur hópsins eru:

• Ráðinn verði samhæfingaraðili upplýsinga um námsframboð og atvinnutækifæri sem heldur utan um gagnaöflun, umsýslu og kynningu á því efni sem fyrir liggur hverju sinni. Starfsmaðurinn verði einnig samhæfingaraðili fyrir framhaldsskóla og atvinnulífið til að koma á auknu samstarfi.
• Að styrkja verkefnið „Ráðning með stuðningi“ sem Vinnumálastofnun hefur haft sem tilraunaverkefni frá árinu 2016. Áherslan í verkefninu er að fjölga starfstækifærum og auka fjölbreytni í úrræðum fyrir fólk með fötlun.
• Að auka samfélagslega vitund fyrirtækja að bjóða einstaklingum með fötlun starf við hæfi, og vinna gegn fordómum í þeirra garð. Samtök atvinnulífsins hafa þegar riðið á vaðið með hvatningarátak til fyrirtækja til þess að ráða til sín fólk með skerta starfsgetu.
• Fjölga námstækifærum m.a. hjá símenntunarmiðstöðvum og háskólum þar sem færri komast að en vilja. Myndlistarskólinn í Reykjavík hefur þegar fengið styrk til að opna á sérstaka námsleið sem gefist hefur mjög vel.
• Auka aðgengi fólks með fötlun að tómstunda- og íþróttastarfi þannig að fleiri einstaklingar hafi greiðari aðgang að ástundun á sínu áhugasviði, t.d. með sértækum styrkjum til íþrótta- og æskulýðsfélaga.