Fisherman fær ASC og MSC vottun

Fisherman á Suðureyri hefur fengið bæði ASC og MSC vottun á framleiðsluvörur fyrirtækisins tengar fiski og verður þar með fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að bjóða bæði ASC og MSC vottaðar vörur í verslunum á Íslandi. Þessar vottanir koma í kjölfarið á ítarlegum úttektum á  framleiðsluháttum og verklagi þar sem gæðakröfur við framleiðslu og virðing fyrir umhverfinu er höfð að leiðarljósi segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

ASC (Aquaculture Stewardship Counsel) er ein strangasta umhverfisvottun þegar kemur að fiskeldi og þekkt um allan heim. Fyrirtæki sem standast ASC vottun skuldbinda sig að lágmarka áhrif á umhverfið á ýmsa vegu. MSC- vottunin staðfestir að hráefni sem fer í gegnum stöðina sé upprunnið úr sjálfbærum fiskistofnum.

Það er vottunarstofan Tún ehf sem tekur út starfsemina og gefur út skírteinin til staðfestingar á vottuninni.