Deshús

Deshús eða ilmhylki voru notuð í Evrópu frá síðmiðöldum og allt fram á 19. öld og voru borin um hálsinn eða í belti. Þau eru hol að innan og ætluð fyrir ilmefni, en orðið des þýðir ilmefni eða angan. Elstu deshús sem varðveist hafa hér á landi eru frá 16. öld og eru öll erlend smíði. Í kjölfar svartadauða á 14. öld komust deshúsin fyrst í notkun á meginlandi Evrópu, því ákveðin ilmefni þóttu góð vörn gegn hinum ýmsu kvillum, þar sem þau bægðu frá slæmu lofti sem talið var bera með sér sjúkdóma.

Enskt heiti deshúsa er pomander, stytting úr frönsku af pomme d‘ambre, sem gæti útlagst sem amburepli á íslensku. Ambur, sem var algengt efni til ilmgerðar, myndast í meltingarvegi búrhvala og berst út með saur þeirra. Þegar ambrið þornar og oxast ber það með sér sterk efnasambönd sem henta vel til ilmvatnsgerðar.

Ásamt ambri voru ilmgjafar á við myrru og sandalvið notaðir en síðar bættust m.a. við moskusilmefni (musk), lofnarblóm, kanel, sítróna og negull.

Heitið deshús hefur, eins og pomander, fremur víða merkingu. Sögulega séð hafa bæði heitin náð yfir ilmhylki sem í var klútur vættur með ilmefni, en líka yfir það sem kallast balsambüchse á þýsku: lítil smyrslaskrín sem gátu einnig verið borin um háls eða hengd í belti

Deshúsið sem hér um ræðir er þess konar smyrslaskrín. Það er úr silfri, dönsk smíð frá fyrri hluta 17. aldar, algrafið að utan með fuglum og blómum. Það hefur sex hólf með draglokum á, og á þrjú þeirra eru grafin ilmefnanöfnin Citron B, Negel B og SCHLAG B. B stendur þarna fyrir balsam sem þýðir smyrsl.
Schlag balsam var blanda af ambri, moskusilmefni og ilmefni deskattar og þótti gagnlegt til varnar heilaslagi (heilablóðfalli). Tvö draglokanna virðast ekki vera upprunaleg, þau eru úr látúni og ekkert grafið á þau, en á eitt hólfið vantar nú lok. Hólfin sex eru föst saman að neðan og eru á hjörum. Þau eru gyllt að innan og á þeim hliðum sem snúa saman þegar þeim er lokað.

Deshúsið stendur á stétt sem hefur upprunalega verið hol að innan og einnig notuð fyrir ilmefni. Síðar hefur henni verið breytt í innsigli en á það er grafið öfugt gotneskt G.

Af vefsíðu Þjóðminjasafns Íslands

DEILA