Daníel: hærra íbúalágmark gríðarlega mikilvægt

„Ég man ekki í fljótu bragði hvað bærinn hefur ályktað í þessum efnum. Tel þó að það sé nokkuð mikill stuðningur innan bæjarstjórnar við frumvarp ráðherra þ.e. um að hækka lögbundin lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélagi úr fimmtíu í 1000 íbúa.“

Þetta segir Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í svari við fyrirspurn Bæjarins besta. Hann var spurður að því hvort  meirihlutinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar styddi framkomna tillögu um að hafna íbúalágmarki frá sveitarstjórnarmönnum í 20 sveitarfélögum á landinu, þar með talið í 6 sveitarfélögum á Vestfjörðum.

 

„Sjálfur tel ég þetta frumvarp vera gríðarlega mikilvægt til að efla sveitarstjórnarstigið. Í dag búa um 350 þúsund af 367 þúsund íbúum landsins í sveitarfélögum sem hafa fleiri en 1000 íbúa þannig að flestir íbúar landsins búa nú þegar í sveitarfélögum með yfir 1000 íbúa.“

 

„Það er hlutverk ríkisvaldsins að ákveða hvaða kröfur þarf að uppfylla til að teljast sveitarfélag. Í dag þarf 50 íbúa til en gangi þetta frumvarp eftir þarf 1000 íbúa. Það mun styrkja sveitarstjórnarstigið að fækka sveitarfélögum og draga úr vægi landshlutasamtaka en ríkið hefur í mjög auknum mæli beint verkefnum í gegn um þau sem og byggðarsamlög til að einfalda stjórnsýslu sína. Þessi samlög og samstarfsverkefni draga hinsvegar úr gegnsæi og ábyrgð. Að vera með um 70 sveitarfélög á landinu tel ég vera tímaskekkju og algjöran óþarfa. Mikið væri unnið með að fækka þeim niður í um 30. Það myndi gera það að verkum að svæði þyrftu að móta sér sameiginlega sýn og þeir sem koma fram fyrir hönd þeirra hafa meira vægi í umræðunni og hagsmunagæslu gagnvart ríkinu, íbúum og atvinnulífinu. Það er fyrst og fremst á þessum forsendum sem að ég styð umrætt frumvarp og með hliðsjón af þeirri staðreynd að ég tel að við séum sterkari saman en í mörgum litlum einingum.“

DEILA