Bolvíkingur skilar Breiðablik í fremstu röð í skák

Bolungavík var eitt sinn kölluð mekka skáklistarinnar á Íslandi og þar var um langt skeið öflugt skákstarf sem margir stóðu að. Um árabil var ein öflugasta skáksveit landsins frá taflfélagi Bolungavíkur og varð hún Íslandsmeistari meðal annars þrjú ár í röð á árunum 2010-13.

Nú í dag gætir bolvískra áhrifa í uppbyggingarstarfinu í skákinni fyrir sunnan. Í blaði sem dreift var í hús í Kópavogi í vikunni er minnst á það starf sem er að skila skákdeild Breiðabliks (og Bolungavíkur) í fremstu röð og þar er minnst á störf Halldórs Grétars Einarssonar, skákmeistara frá Bolungavík  sem hefur dregið vagninn í því starfi. Þess má geta að skákdeild Breiðabliks hefur bryddað upp á þeirri nýbreytni að ungmennin mæta í móti í félagsbúningum sem hefur ekki tíðkast áður í skákinni.

Kristófer Gautason, formaður skákdeildar Breiðabliks í Kópavogi þakkar glæsilegan árangur deildarinnar dugnaði og framsýni Halldórs Grétars Einarssonar. Segir Kristófer að Halldór Grétar hafi lagt grunninn að hugmyndafræðinni sem deildin starfar eftir og skilaði fimm Íslandsmeistaratiltlum af níu sem keppt var um á nýlegu Íslandsmeistaramóti ungmenna.

DEILA