Bolungavík: 1.435 tonna afli í nóvember

Alls lönduðu 20 skip og bátar 1.435 tonnum af fiski í Bolungavíkurhöfn í nóvember. Mánuðurinn var risjóttur og erfiður á köflum til róðra, segir í greinargerð hafnarvarðar og þegar komið var að mánaðamótum var mokveiði hjá vélarbátunum og á dragnótina.

Togarinn Sirrý Ís var langaflahæst með 684 tonn í 7 veiðiferðum.

Þorlákur ÍS aflaði 105 tonn í 13 veiðiferðum á snurvoð og einnig Finnbjörn ÍS sem landaði  56 tonnum í 13 veiðiferðum. Þá var Saxhamar SH með 46 tonn.

Línubátarnir reru að venju nokkuð stíft. Jónína Brynja ÍS fór 17 róðra og aflaði 175 tonnum, og Fríða Dagmar ÍS var með 167 tonn í 16 róðrum, en báðir eru með beitningavél.

Einar Hálfdáns ÍS fór 17 róðra og veiddi 86 tonn og Otur II fékk 87 tonn í 17 róðrum.