Bakvörðurinn á Bergi verður ekki ákærður

Hjúkrunarheimilið Berg er í þessu húsnæði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Héraðsaksóknari hefur ákveðið að ákæra ekki konu sem starfaði sem bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í apríl síðastliðnum.  Konan var handtekin 10. apríl og sagði þá í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum að forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefði lagt fram kæru. Þar var hún borinn þeim sökum að hafa lagt fram fölsuð gögn er varða starfsréttindi sem heilbrigðisstarfsmaður. Þá lék grunur um að starfsmaðurinn hafi misfarið með lyf í dvalarheimilinu, þ.e.a.s. tekið lyf ófrjálsri hendi.

Lögmaður konunnar segir að konan hafi nú verið hreinsuð af öllum sakaráburði. Hann hefur tilkynnt að ríkinu verði stefnt vegna handtökunnar. Þa verður fjölmiðlum stefnt svo og einstaklingum.

Í fréttatilkynningunni lögreglunnar á Vestfjörðum frá 10. apríl segir:

„Kl.11:12 í morgun (10.04.2020) barst lögreglunni á Vestfjörðum kæra fá forstöðumanni Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða gagnvart einum bakvarða heilbrigðissþjónustu sem svaraði hjálparbeiðni heilbrigðisstofnunarinnar vegna veirusýkingar og manneklu á dvalarheimilinu Bergi í Bolungarvík.“  og ennfremur segir þar:
„Í framhaldi þessa fóru lögreglumenn á dvalarstað starfsmannsins og var hann handteinn og færður til yfirheyrslu. Þá var framkvæmd húsleit á dvalarstaðnum.
Yfirheyrslan hefur farið fram og hefur starfsmanninum verið sleppt enda ekki fyrir hendi ástæða til að halda honum lengur. Rannsókn málsins stendur enn yfir og ekki tímabært að veita frekari upplýsingar.“
Lögreglan á Vestfjörðum hefur ekki brugðist við niðurstöðu Héraðssaksóknara. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir í svari við fyrispurn Bæjarins besta að hann vildi ekki tjá sig um efni málsins „nema að ég vona að því sé hér með lokið.“
DEILA