Arna Lára: styður lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi

Fyrir þingi sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið lögð fram tillaga frá fulltrúum 20 sveitarfélaga innan sambandsins þar sem lagt er til að lagst verði gegn því að lögfest verði 1000 manna íbúalágmark í sveitarfélagi. Sveitarstjórnarmálaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um lögfestingu þess og nái það fram að ganga verða fámennari sveitarfélög ekki lengur  til innan fárra ára. Samband íslenskra sveitarfélag samþykkti á landsþingi í september 2019 að styðja slíkt lágmark.

Á Vestfjörðum eru 9 sveitarfélög og eru meðal flutningsmanna tillögunnar nú fulltrúar sex þeirra Tálknafjarðar, Bolungavíkur, Súðavíkur, Reykhóla, Árneshrepps og Kaldrananeshrepps.

Engir fulltrúar eru frá Ísafjarðarbæ meðal flutningsmanna og varu oddvitar framboðslista inntir eftir afstöðu framboða sinna til málsins.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í- listans segir að þau sem standa að Í-listanum hafi  ekki myndað sér sameiginlega skoðun á því. „En ég persónulega styð ég að sett verði á íbúalágmark sem samþykkt var á landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga í september 2019.“