Umtalsverð fólksfjölgun varð á sunnanverðum Vestfjörðum síðustu 12 mánuði samkvæmt nýbirtum tölum frá Þjóðskrá Íslands. Íbúum í Vesturbyggð og á Tálknafirði fjölgaði um 63 eða um 5% frá 1. desember 2019 til sama tíma í ár. Fjölgunin í Tálknafirði varð sú fimmta mesta á landinu hlutfallslega séð.
Í Vesturbyggð fjölgaði íbúum úr 1.020 í 1.067 og í Tálknafirði varð einnig fjölgun. Íbúar voru 252 í fyrra en 268 nú. Samtals nemur fjölgunin 63 manns og eru íbúar á svæðinu nú 1.335.
Á Vestfjörðum varð einnig fjölgun um 1 í Kaldrananeshreppi en annars staðar fækkaði íbúum. Mest varð fækkunin í Reykhólahreppi. Þar fækkaði um 24 íbúa eða 9,2%. Í Árneshreppi fækkaði um 3 íbúa eða 7% og í Strandabyggð fækkaði um 19 manns sem gerir 4,2% fækkun. Í heildina fækkaði um 18 manns á Vestfjörðum sem gerir 0,3% fólksfækkun.
Vestfirðir eru eini landshlutinn þar sem fólki fækkaði milli ára. Íbúar voru 1. desember sl 7.100 en voru 7.118 fyrir ári. Í Reykjavík varð fjölgun um 1,6% eða 2.051 manns. Mest fjölgun varð á Suðurlandi eða 1,8%.