Vesturbyggð segir í umsögn sinni um breytingar á hafnalögum sem nú eru í umsagnarferli að ákvæði um nýtt eldisgjald, sem hafnir innheimta af eldisfiski, sé óljóst og áfram muni ríkja óvissa um gjaldtökuna. Bent er á að ekki sé tiltekið hvort gjaldtaka eigi að fara eftir hlutfalli af söluverðmæti , fastri krónutölu pr kíló eða eftir öðrum leiðum.
Lagt er til í umsögn Vesturbyggðar að gjaldið verði minnst 0,7% og mest 3% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjóðslegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram. Miða skuli við þyngd lax eftir slátrun þ.e. slægðan fisk. Segir í umsögninni að gjaldstofninn sé sá sami og notaður er til þess að ákvarða gjöld í fiskeldissjóð.
Þá er lagt til að gjaldið standi undir kostnaði við dýpkun hafna auk þess kostnaðar sem tiltekinn er í frumvarpsdrögunum sem er að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka þar sem við á og almennan rekstrar- og stjórnnunarkostnað.
Vesturbyggð vill ennfremur að skýrar verði gjaldtökuheimildir fyrir þær hafnir sem gegna aðeins hlutverki þjónustuhafna fyrir fiskeldið en fer fram annars staðar. Að lokum er hvatt til heildarendurskoðunar á hafnalögum meðal annars vegna vaxandi fiskeldis.