Vesturbyggð: tekur undir ályktun Tálknafjarðarhrepps um ferjuna Baldur

bæjarráð Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í gær um Breiðafjarðaferjuna Baldur og vill að ferðum verði fjölgað í samræmi við aukna atvinnustarfsemi á svæðinu og að ferjan verði endurnýjuð.

 

Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á mikilvægi hlutverks Breiðafjarðarferjunnar Baldurs þar sem ferjusamgöngur yfir Breiðafjörð gegna lykilhlutverki fyrir íbúa og atvinnurekendur á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Erfiðar vetrarsamgöngur á Vestfjarðavegi, þar sem einstaklingar neyðast til að skilja bíla sína eftir vegna ófærðar, vegkantar hrynja undan flutningabifreiðum, hálkuvörnum og söndun er ábótavant og fjarskiptasamband er ótryggt, verður til þess að ferja yfir Breiðafjörðinn gegnir lykilhlutverki í að tryggja öryggi íbúa og að hjól atvinnulífsins snúist eðlilega á sunnanverðum Vestfjörðum. Sú staðreynd að Vestfjarðavegur um Klettsháls hafi verið lokaður í meira en 40 skipti í fjórar klukkustundir eða lengur það sem af er árinu 2020, er ekki hægt að una við. Vesturbyggð leggur því ríka áherslu á að ferðum ferjunnar verði fjölgað í samræmi við aukna atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum sem og mikilvægi þess að endurnýjun ferjunnar verði flýtt eins og kostur er til að tryggja öryggi íbúa og afkastagetu til að mæta auknum flutningum, til og frá sunnanverðum Vestjförðum.“