Vesturbyggð tekur ekki afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Vesturbyggð tekur ekki afstöðu til þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem 25 þingmenn hafa flutt á Alþingi. Þar á meðal eru 5 þingmenn kjördæmisins. Í þeim hópi eru þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir. Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson.

Í tillögunni er lagt til að spurt verði eftirfarandi spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?
▢ Já.
▢ Nei.“

Í greinargerð með tillögunni er að finna rökstuðning fyrir tillögunni á þennan veg

„Með því fær þjóðin tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna og þjóðaröryggis. Ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins.“

Málið var lagt fram í bæjarráði Vesturbyggðar í gær. Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir að sveitarfélagið taki ekki afstöðu til þingsályktunarinnar en leggi ríka áherslu á að hvernig sem málefni flugvallarins enda að öryggi íbúa á Vestfjörðum verði  ávallt tryggt með skjótu og góðu aðgengi að bráða heilbrigðisþjónustu.