Vegagerðin: samið við lægstbjóðanda

„Í útboðinu sem um ræðir var samið við þann bjóðanda sem átti lægsta gilda tilboð svo sem lög krefjast. Vegagerðin getur ekki — í þessu tilviki frekar en öðrum sem snúa að útboðum — samið við einhvern annan aðila en þann sem á lægsta boð og sem uppfyllir útboðsskilyrði.“ segir í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

„Kærunefnd útboðsmála hafði heimilað Vegagerðinni að semja við lægstbjóðendur sem voru í tilviki flugs á Vestfirði Norlandair ehf. og í tilviki flugs á Höfn í Hornafirði Ernir ehf. Tímabil fyrri samnings var runnið út og því ekki annað fyrir Vegagerðina að gera en að ganga til samninga.“

Þá segir að hver sem endanleg niðurstaða kærunefndarinnar verður sé  ljóst að kærunefndin muni ekki kveða á um að flugfélagið sem veitir þjónustuna muni gera það með ófullnægjandi hætti. Þá kemur fram í svörum Vegagerðarinnar að í kærumálinu sé ekki deilt um gæði flugvéla eða annað sem lýtur að þjónustu Norlandair.

Loks er tekið fram að ekki standi til að sinna fluginu á verri flugvélum en hingað til hafa verið notaðar. „Gæði þjónustunnar munu ekki minnka enda hefur ekki verið vikið frá kröfum útboðsins.“

DEILA