Umdeild afstaða Vesturbyggðar í flugvallarmálinu

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Afstaða bæjarráðs Vesturbyggðar til þingmáls á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar er umdeild. En bæjarráðið tekur ekki afstöðu til þingmálsins og Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri sagði á vef Bæjarins besta í gær  að sveitarfélagið  legði ríka áherslu á að hvernig sem málefni flugvallarins enda að öryggi íbúa á Vestfjörðum verði  ávallt tryggt með skjótu og góðu aðgengi að bráða heilbrigðisþjónustu.

Ólafur Bjarni Halldórsson, Ísafirði segir í athugasemd við fréttina að bæjarstjórinn í Vesturbyggð mætti gera sér grein fyrir að „borgarstjórn Reykjavíkur, sem hefur háð 20 ára herferð gegn Reykjavíkurflugvelli, lítur ekki á það sem hlutverk sitt að sjá til „að öryggi íbúa á Vestfjörðum verði ávallt tryggt með skjótu og góðu aðgengi að bráða heilbrigðisþjónustu“. Þess vegna þarf sveitastjórn Vesturbyggðar ekkert að vera að leika þæga krakkann og þóknast fólki sem er tilbúið að standa í skæruhernaði áfram í þeim tilgangi að geta byggt lúxusíbúðir í Vatnsmýri. Í þeim hernaði er og verður öryggi íbúa á Vestfjörðum létt á metunum.“

Úlfar Thoroddsen, Patreksfirði, fyrrverandi sveitarstjóri,  segir í skilaboðum sínum til bæjarráðsins að hann sé innilega sammála Ólafi Bjarna Halldórssyni og „það eru sennilega flestir eða allir Vestfirðingar aðrir en þið í bæjarráði Vestubyggðar. Bæjarstjórinn hefði átt aða hafa vit fyrir ykkur og koma í veg fyrir þessa ályktun.“

Úlfar bætir svo við og vill að bæjarráðið dragi afstöðu sína til baka og biðjist velvirðingar á fljótfærninni:

„Þið eruð alls ekki að tala í nafni íbúa Vesturbyggðar í þessu máli. Yfirlýsingin er algjörlega vanhugsuð, nema það sé vísvitandi verið að ganga erinda andstæðinga Reykjavíkurflugvallar. Það er alvarlegt að geta ekki stutt þetta þingmannamál en ætlast til stuðnings þeirra í öðrum málum. Margir íbúar þessa svæðis eiga líf sitt og endurheimtri heilsu Rvíkurflugvelli að þakka. Ef sá flugvöllur verður lagður niður verður nýr flugvöllur utan Rvíkur og þá lengist leiðin á Landspítalann með bráðveikt eða deyjandi fólk utan af landi (og úr Vesturbyggð). Hver mínúta skiftir máli varðandi það  að koma því fólki í læknishendur. Dragið ályktunina til baka og biðjist velvirðingar á fljótfærninni. Það ætti að efna til íbúafundar um þessa yfirlýsingu en aðstæður leyfa það ekki að sinni.“

 

DEILA