Tíðarfar í október 2020

Hitavik sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).

Tíðarfar í október var hagstætt. Mánuðurinn var fremur hlýr og hægviðrasamur. Austlægar áttir voru tíðar í mánuðinum.
Þurrt var á vestanverðu landinu en blautara austanlands.

Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig og er það 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,2 stig, 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,6 stig og 5,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Í Bolungarvík var meðalhitinn 5,1 stig og er það 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Að tiltölu var hlýjast um landið vestanvert en kaldast á Austurlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,2 stig í Bíldudal. Neikvætt hitavik var mest -0,4 stig á Fáskrúðsfirði.

Mánuðurinn var hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi. Austlægar áttir voru ríkjandi.

DEILA